Framtíð Saab er í óvissu

http://www.fib.is/myndir/Saab-Carlsson.jpg
Eric Carlsson var óhemju sigursæll rallkappi á Saab á árunum 1955-1970. Kona hans Pat sem er til hægri var einnig afbragðs keppnismaður.

Þá er það loks orðið ljóst hvað General Motors ætlar sér með hið sænska Saab í framtíðinni. Á blaðamannafundi í nótt tilkynnti Rick Wagoner forstjóri GM framtíðaráætlun þessa bílarisa á brauðfótum. Áætlunin hefur verið send bandarískum stjórnvöldum í Washington. Búist er við að ákvörðun þeirra um aðstoð við GM liggi fyrir um næstu mánaðamót.

Nú er það staðfest að Saab er ekki inni í þessari áætlun, enda er það víst ekki til vinsælda fallið í Washington að krefjast aðstoðar við að lappa upp á erlent bílaframleiðslufyrirtæki í kröggum. Því hefur GM hefur farið fram á aðstoð sænskra stjórnvalda við að gera Saab fjárhagslega og stjórnunarlega sjálfstætt svo hægt sé að selja fyrirtækið. Sú endurskipulagning sem nauðsynleg er til að svo geti orðið gæti hafist þegar í stað og þá yrði fyrirtækið söluhæft um næstu áramót. Í raun þýðir þetta að GM er að segja við sænsk stjórnvöld: -Lánið okkur peninga til að endurskipuleggja Saab og gera fyrirtækið söluhæft, annars leggjum við það niður.

Sú framtíðaráætlun sem Rick Wagoner kynnti fjölmiðlum í nótt ræður úrslitum um það hvort stjórnvöld í Washington telja það ómaksins vert að veita fyrirtækinu hagstætt lán til að koma undir það fótunum á nýjan leik. GM var gert að sýna fram á það með sannferðuglegum hætti að því væri yfirleitt viðbjargandi og hægt yrði að fleyta því í gegn um þetta og næsta ár réttu megin við núllið. Ef fulltrúar stjórnvalda telja sig ekki geta lesið það út úr rekstaráætluninni fær GM ekkert lán frá bandarískum skattgreiðendum og fer einfaldlega á hausinn.

Það er því um líf eða dauða þessa fyrrum stærsta bílaframleiðslufyrirtækis veraldar að tefla og hlutur Saab í heildardæminu er sannarlega ekki stór. Hann er hins vegar nokkur fyrir frændur vora Svía því að fari Saab í gjaldþrot missa fimm þúsund starfsmenn Saab í Trollhättan vinnnuna við það að langstærsta avinnufyrirtæki bæjarins hættir starfsemi.

Þótt Saab sé með minnstu bílaframleiðslufyrirtækjum heimsins þá hefur fyrirtækið lengstum framleitt afskaplega vandaða og trausta bíla og innan þess hefur safnast upp ótrúlega mikil þekking og kunnátta sem mun tvístrast út og suður ef Saab hættir að vera til.

Maud Olofsson atvinnumálaráðherra Svíþjóðar heldur blaðamannafund í Stokkhólmi nú fyrir hádegið. Hingað til hefur ráðherrann ekki verið viljug til að setja peninga í Saab upp á von og óvon eins og hún hefur orðað það. Við segjum frá fundinum síðar í dag.