Frankfurt bílasýningunni lokið

http://www.fib.is/myndir/Opel-Flextreme.jpg

Stærstu bílasýningu heims, bílasýningunni í Frankfurt er lokið. Hún hófst þann 13. september og lauk í gærkvöldi, sunnudagskvöld 23. sept. Frankfurt-sýningin er haldin annað hvert ár og skiptist á við Parísarbílasýninguna. Hátt í ein milljón gestir komu á sýninguna í ár sem er nokkru fleira en mætti á sýninguna fyrir tveimur árum.

Fyrstu tveir dagar Frankfurt-bílasýningarinnar eru eingöngu ætlaðir blaða og fréttamönnum. Að þessu sinni voru gefin út tæplega 15 þúsund aðgangskort fyrir fjölmiðlafólkið. Um 60% fjölmiðlamanna sem komu á sýninguna voru Þjóðverjar. Fjölmiðlafólkið kom frá samtals 94 löndum.

Umhverfismildin var í fyrirrúmi í Frankfurt að þessu sinni og  kepptust bílaframleiðendur og framleiðendur íhluta í bíla við að sýna nýjustu tæknina sem skilar hreinni útblæstri og umhverfismildari bílum. Alls voru um 80 nýjar bílagerðir heimsfrumsýndar að þessu sinni auk þess sem mikill fjöldi þekktra tegunda og gerða voru sýndar með uppfærðum tæknibúnaði.

Meðal nýrra og mikið nýuppfærðra bíla á Frankfurtsýningunni nú, sem athygli vöktu má nefna eftirfarandi bíla sem raðað er eftir stafrófsröð: (H) stendur fyrir hugmyndarbíll eða frumgerð- (A) stendur fyrir andlitslyfting eða minniháttar breyting)
 
Audi A4, Audi RS6 Avant, BMW 1 Coupé, BMW X6 (H), Cadillac BLS skutbíll, Chevrolet Aveo, Citroën C5 Airscape (H), Citroën C-Cactus (H), Dodge Journey, Fiat 500, Ford Verve (H), Ford Kuga, Ford Focus (A), GM Hydrogen4, Jeep Cherokee, Honda Accord Tourer (H), Hyundai i30 skutbíll, Jaguar XF, Kia Picanto (A), Kia Ceed þriggja dyra, Kia Kee coupé (H), Mazda 6, Mercedes-Benz C-Class skutbíll, Mercedes-Benz ML 450 tvinnbíll, Mercedes-Benz F700 (H), Mini Clubman, Mitsubishi cX (H) ,Mitsubishi Lancer stallbakur, Nissan Tiida, Nissan Mixim (H), Opel Agila, Opel Flextreme tvinnbíll (H), Peugeot 308 hlaðbakur, Peugeot SW (H)  Peugeot Hybrid  Peugeot RCZ (H), Peugeot Flux (H), Porsche Cayenne tvinnbíll (H), Renault Laguna, Renault Laguna coupé (H), Renault Clio skutbíll, Renault Kangoo, Skoda Fabia skutbíll, Seat Tribu (H), Suzuki Splash, Suzuki Kizashi (H), Subaru Impreza, Subaru Tribeca (A), Volvo ReCharge (K), VW Tiguan, VW Up! (H), VW Caddy Life Maxi, Toyota iQ (H).