Franskir bílar skammlífastir

Franskir bílar hafa skemmri líftíma í Noregi en aðrir bílar. Langlífastir þar í landi eru Mercedes og Volvo og hafa verið lengi. Á óvart kemur að Toyota bílar endast að meðaltali um þremur árum lengur en Ford og þremur og hálfu ári lengur að meðaltali en Peugeot.

Þetta kemur fram í frétt í norska bílatímaritinu BilNorge en fréttin er byggð á tölum yfir þá bíla sem afskráðir voru og sendir í eyðingu, Alls voru í fyrra afskráðir 87.137 fólksbílar í Noregi eða heldur færri en árið 2008, en þá voru afskráðir 98.552 fólksbílar. Sl. 10 ár hafa að meðaltali verið afskráðir um 95 þúsund bílar árlega. Flestir afskráðu bílanna í fyrra voru af Ford gerð, 10.874. Næst flestir voru Volkswagen, 9.856 og Opel 8.491.

Meðalaldur bílanna sem fóru í eyðingu í fyrra var 18,5 ár á móti 18,7 ár árið 2008. Fyrir áratug var meðalaldur afskráðra bíla 17,6 ár en fór síðan hækkandi og var hæstur árið 2006; 19,0 ár.

Eins og sjá má af töflunni og grafinu hér að neðan er  langlífi bíla mjög misjafnt. Nokkrar bílategundir eins og t.d. Kia, Daewoo og Hyundai hafa ekki verið mjög lengi á markaði í Noregi og því er ekki hægt að jafna aldri þeirra við aldur tegunda sem lengi hafa verið á Noregsmarkaði.

Mercedes-Benz er eins og mörg undanfarin ár sá bíll sem hæstum aldri nær (22,1 ára). Næstur kemur Volvo (21,8 ára).

Allar frönsku bílategundirnar sem fóru í eyðingu 2009 voru skammlífari en meðaltalið. Renault varð 14,8 ára, Citroën 15,7 ára og Peugeot 16,6 ára.

Japanskir bílar náðu almennt hærri aldri en meðaltalið og Toyota reyndist langlífasta tegundin með meðalaldurinn 20,1 ár. Næst kom Mazda sem varð 19,8 ára. Þriðji japanski bíllinn, Mitsubishi náði hins vefgar „aðeins“ 17,8 ára meðalaldri.

Skýringin á háum aldri tegunda eins og t.d. Dodge og Chevrolet er sennilegast sú að fornbílar af þessum tegundum eru talsvert vinsælir, en í Noregi teljast bílar fornbílar við 30 ára aldurinn. 

http://www.fib.is/myndir/Aldursgraf2.jpg

http://www.fib.is/myndir/Aldursgraf.jpg