Frjáls hraði áfram á þýsku hraðbrautunum

http://www.fib.is/myndir/Autobahn-050501.jpg

Tillögur frá Græningjum (Die Grüne) og Vinstri flokknum (Die Linke) um að setja almenn hámarkshraðamörk á þýsku hraðbrautirnar –Átóbanana- voru felldar í atkvæðagreiðslu í þýska þinginu í gær.

Tillaga Vinstriflokksins var um að almenn hámarkshraðamörk á hraðbrautum Þýskalands yrðu 130 km/klst. en tillaga Græningja gekk lengra og samkvæmt henni átti hámarkshraðinn að verða 120 km/klst.

Greidd voru atkvæði í þinginu í gær um báðar þessar tillögur. Stóru flokkarnir í þinginu; Union, Sósíaldemókratar og Frjálslyndir sameinuðust um að greiða atkvæði gegn báðum tillögunum. Í forsendum sameiginlegrar andstöðu flokkanna segir m.a. að allar rannsóknir sýni að slysum á þýsku hraðbrautunum hafi fækkað og að bílarnir séu orðnir miklu öruggari en áður og auk þess umhverfisvænni.

Almenn hámarkshraðamörk eru ekki á þýsku hraðbrautunum heldur eru sett staðbundin mörk þar sem ástæða þykir til. Þar sem engin slík mörk eru, er almennt mælt með því á sérstökum skiltum meðfram hraðbrautunum að fólk aki á 130.