Frumkvöðull rafbíla trúir ekki á framtíð rafbílsins

http://www.fib.is/myndir/ThureBarsCarn.jpg
Thure Barsøe-Carnfeldt.

„Framtíðarbíllinn er loftbíllinn – bíllinn sem keyrir á þrýstilofti. Hann kemst 250 km á hleðslunni og það tekur einungis 2-4 mínútur að full-hlaða tóma loftgeymana. Það er auðvelt að geyma þrýstiloftið I tönkum án nokkurs minnsta orkutaps og vandalaust að flytja það í rörum til afgreiðslustöðvanna. Þá er hægt að láta vindmyllur þjappa loftinu beint í stað þess að breyta orkunni í rafmagn og hlaða því inn á rafgeyma,“ segir Daninn Thure Barsøe-Carnfeldt í samtali við bílablað dagblaðsins Jyllands Posten nýlega.

Thure Barsøe-Carnfeldt er frumkvöðull rafbíla í Danmörku en auk þess á hann að baki langan feril í viðskiptum og stjórnmálum og sat m.a. á danska þinginu um skeið. Hann var einn af aðstandendum rafbílsins Hope Whisper sem þróaður var og reynt að markaðssetja í Danmörku, Evrópu og Bandaríkjunum á níunda áratuginum. Alls voru byggðar 32 mismunandi frumgerðir bílsins og sumar náðu það langt að standast áreksturspróf bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Fjármögnun verkefnisins tókst hins vegar ekki og verkefnið rann út í sandinn.

Thure Barsøe-Carnfeldt segir í viðtalinu að sáralítið hafi í raun miðað fram á við síðan hann sjálfur var að vesenast í því að þróa Hope Whisper bílinn. Rafgeymarnir hafi alla tíð verið versti trafalinn í vegi rafbílanna og hann telur að taka verði öllum fullyrðingum um nýja og miklu öflugri og léttari rafgeyma með varúð. Hann trúir einfaldlega ekki að rafbílar eigi framtíðina fyrir sér, heldur verði að líta til allt annarra lausna og þar komi þrýstiloftsvélin – sú tækni sem franski vélaverkfræðingurinn Guy Négre fann upp – sterkast til greina.