Frumkvöðull Toyota bílanna látinn

Í gær lést frumkvöðullinn að bílaveldi Toyota, öldungurinn Eiji Toyoda, fimm dögum eftir 100 ára afmælisdag sinn.

Toyodafjölskyldan á sér langa sögu í iðnrekstri og vélaframleiðslu fyrir vefiðnað. Eiji Toyoda útskrifaðist sem vélaverkfræðingur  árið 1938 og byrjaði eftir það að vinna hjá bíladeild fjölskyldufyrirtækisins sem tekið hafði til starfa tveimur árum áður og framleiddi bíl undir gerðarheitinu AA.  Fyrsta verkefni hans var að setja upp nýja og fullkomna  bílaverksmiðju. Uppbygging hennar tafðist vegna heimsstyrjaldarinnar sem brast á 1939 og varð nýja verksmiðjan ekki að  veruleika fyrr en að stíði loknu.

http://www.fib.is/myndir/ToyotaAA.jpg
Einn fyrsti, ef ekki allra fyrsti Toyotabíllinn.
Toyota AA frá 1936. Bíllinn er á Lowman safn-
inu í Haag í Hollandi.
http://www.fib.is/myndir/Dr-Toyoda.jpg
Skrifborð Eijli Toyoda er einnig á Lowman bíla-
safninu. Myndir: Ólafur Kr. Guðmundsson.

Eiji Toyoda þótti alla tíð mjög skyldurækinn, stefnufastur  og einþykkur maður og fyrir þessa eiginleika sína fékk hann viðurnefnið uxinn. Þegar hann tók upp þráðinn á ný með nýju bílaverksmiðjuna eftir stríð byrjaði hann, eins og  feðgarnir Ferdinant og Ferry Porsche höfðu áður gert, að fara til Dearborn í Michigan til að heimsækja Ford verksmiðjurnar þar. Þetta var árið 1950 og þá var bílaframleiðslan hjá Toyota aðeins 2.500 bílar á ári á móti 8.000 á dag hjá Ford. Elji Toyoda hreifst mjög af framleiðsluaðferðunum hjá Ford en  tók líka eftir verulegum ágöllum eins og mikilli efnissóun og skipulagsskorti og vondum vinnubrögðum  í ýmsum þáttum framleiðslunnar.

Heimkominn nýtti hann sér þá þekkingu sem hann hafði aflað sér hjá Ford, verksmiðjan í Koromo í Japan komst í gang og  þótti til fyrirmyndar að öllu leyti og í sérflokki. Öll vinnslulínan var þaulskipulögð, vinnubrögð og framleiðsluaðferðir voru margar nýjar og nýtni og gæðaeftirlit með því besta sem þá þekktist í bílaframleiðslu. Bærinn Koromo í Japan fékk síðar nafnið Toyota City og verksmiðjan varð upphafið að núverandi orðspori og veldi Toyota í bílaheiminum.

Eiji Toyoda var alla starfsævi sína mjög vinnusamur og heilsuhraustur og lengi var sem aldurinn biti lítt á hann. Hann byggði upp og stjórnaði Toyota bílaveldinu röggsamlega. Hann vék úr forstjórastólnum 1981 og gerðist stjórnarformaður eftir það. Stjórnarformennskunni gegndi hann til ársins 1994.

Snemma á forstjóraferlinum áttaði hann sig á því að til að halda velli yrði Toyota að ná fótfestu á hinum risastóra Bandaríkjamarkaði. En fyrsta tilraunin til þess sem gerð var strax árið 1950 með Toyota Crown misheppnaðist gersamlega. Betur gekk um 20 árum síðar með Toyota Corolla sem fram kom árið 1968, nýjan Toyota Crown og Toyota Corona. Það var ekki síst síhækkandi olíuverð og svo sjálfskiptingar sem opnuðu Bandaríkjamarkaðinn fyrir Toyota bílunum ásamt vöruvöndun, lágri bilanatíðni og góðri endingu.

Eitt af því fyrsta sem Eiji Toyoda ákvað sem stjórnarformaður var að skapa nýtt vörumerki  fyrir lúxusbíla – Lexus. Lexus bílarnir voru af hans hálfu einkum hugsaðir fyrir Bandaríkjamarkaðinn í upphafi, árið 1989. En nú er vörumerkið löngu orðið „heimsmerki.“