Frumkynning á Golf VI á Íslandi

http://www.fib.is/myndir/VWGolfIV.jpg
Volkswagen Golf VI á Íslandi.

Þessa dagana fer fram risastór kynning á sjöttu kynslóð Volkswagen Golf á Íslandi. Af því tilefni hafa verið fluttir á annað hundrað nýir Golf bílar til landsins auk annarra fólks- og fólksflutningabíla – samtals um 200 farartæki allt í allt. Gríðarstór sýningar- og veisluskáli hefur einnig verið fluttur til landsins í einingum og reistur uppi á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Þar er tekið á móti hverjum blaðamannahópnum á fætur öðrum. Þegar kynningunni lýkur í lok mánaðarins munu alls um 1.500 erlendir blaðamenn hafa komið til landsins til þessa viðburðar.

Fyrstu blaðamennirnir komu frá Þýskalandi og var nýi bíllinn kynntur þeim og íslenskum bílablaðamönnum. Kynningin hófst í skálanum í Bláfjöllum síðdegis í fyrradag, mánudag. Þaðan var svo ekið á bílunum um Suðurland og að því loknu snæddur hátíðarkvöldverður í Bláfjallaskálanum. Árla morguninn eftir – í gærmorgun - var farið í aðra ökuferð á bílunum sem endaði með hádegisverði í Bláfjallaskála. Þaðan var svo erlendu blaðamönnunum ekið til Keflavíkurflugvallar þar sem flugvél beið þeirra og flutti til Þýskalands. Volkswagen er með sérstaka lúxusinnréttaða farþegaflugvél til að flytja hvern blaðamannahópinn af öðrum til og frá landinu í tengslum við kynninguna á nýja Golfinum.

Tveir blaðamenn á vegum FÍB voru meðal þeirra sem voru í fyrsta blaðamannahópnum; þeir Sigurður Hreiðar og Stefán Ásgrímsson. Nánar verður greint frá reynsluakstri þeirra hér á fréttavef FÍB fljótlega og í næsta tölublaði FÍB blaðsins sem út kemur í desember nk.

http://www.fib.is/myndir/VWGolfVI2.jpg