Fullkomlega gagnslaust FME– sóun á fjármunum

„Stundum getur Skjóðan ekki varist þeirri tilhugsun að íslenska Fjármálaeftirlitið sé í raun fátt annað en sóun á fjármunum. Öryggið sem FME veitir er falskt,“ segir m.a. í ritstjórnarpistlinum Skjóðan í Markaðinum, blaðhluta Fréttablaðsins í dag um viðskipti.

Tilefni pistilsins er áform þriggja tryggingafélaga um risavaxnar arðgreiðslu til hluthafa langt utan og ofan við afkomu félaganna á síðasta rekstrarári. Sjóvá hætti að mestu við þessi áform á aðalfundi sínum nýlega og búist er við að VÍS geri það sama á aðalfundi sínum sem fram fer í dag, 16. mars. Greinarhöfundur Markaðarins fer í saumana á fyrirætlunum VÍS sem einmitt urðu kveikjan að viðbrögðum FÍB gagnvart arðgreiðslum tryggingafélaganna sem Sjóvá og VÍS hafa síðan dregið í land með. Hann lýsir því hvernig VÍS ætlaði að fjármagna ofur-arðgreiðslurnar með því að gefa út víkjandi skuldabréfaflokk með himinháum vöxtum (5,25%) til að eiga fyrir arðinum  ... „sem stjórnin var staðráðin í að koma í hendur hluthafa.“  Bréfin áttu að vera verðtryggð til þrjátíu ára en eftir tíu ár skyldu vextirnir hækka í 6,25 prósent. Þetta eru hærri vexti en sem nemur arðsemi eignasafns félagsins og því blasir við ... „að strax á þessu ári verður félagið að hækka iðgjöld, ekki til að mæta slæmri afkomu af tryggingastarfsemi eins og var notað sem skýring til að hækka iðgjöld í lok síðasta árs, heldur til að standa straum af hinum óhagstæðu lánum sem voru tekin til að greiða út arðinn til eigenda.“

Greinarhöfundur bendir á að verðbréfamarkaðurinn er sveiflukenndur og þessi skuldabréfaútgáfa því afar áhættusöm fyrir VÍS þótt af hálfu þess á fjárfestasíðum á vef VÍS sé annað látið í veðri vaka. 10% verðlækkun bréfanna og 30% lækkun annarra verðbréfa myndi fella félagið niðurfyrir gjaldþolskröfu og þá yrði að grípa til tafarlausra aðgerða til að starfsemin gæti haldið áfram. Ekki væri einu sinni víst að slíkar aðgerðir dygðu, sbr. það sem gerðist hjá stóru eignarhaldsfélögunum í hruninu 2008. Á allt þetta hafi Fjármálaeftirlitið horft með hendur í skauti: „Þessi áætlun um endurreisn gjaldþols er því blekking ein. VÍS er eftirlitsskylt fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlit sem kyngir athugasemdalaust þeim sviðsmyndum sem fram koma í fjárfestakynningu VÍS er fullkomlega gagnslaust. Það hefur ekkert lært af reynslunni,“ segir að lokum í pistlinum.

FÍB vakti rækilega athygli á þessum fyrirhuguðu ofurarðgreiðslum tryggingafélaganna og gerði þau raunar afturreka með þær. Gagnrýni FÍB beindist ekki síst gegn Fjármálaeftirlitinu (FME) og andvaraleysi og skilningsskorti þess gagnvart hagsmunum tryggingataka (neytenda) eins og sjá má nánar um hér og hér.