Fylgst með ökulagi pallbílstjóra í Danmörku

The image “http://www.fib.is/myndir/F150.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Danska vegalögreglan hefur í þessari viku sérstaklega vakandi auga með pallbílum eða minni vörubílum með leyfðri heildarþyngd allt að 3500 kílóum.
Ástæða þessa er ný skýrsla frá hinni dönsku rannsóknanefnd umferðarslysa. Skýrslan sýnir að pallbílarnir lenda í fleiri umferðarslysum miðað við ekna kílómetra heldur en venjulegir fólksbílar. Í skýrslunni kemur einnig fram að einungis um helmingur ökumanna og farþega pallbílanna spenna bílbeltin meðan langflestir ökumenn og farþegar fólksbíla gera það. Ennfremur sýnir það sig að óeðlilega mörg óhöpp verða vegna þess að ökumenn pallbíla eru annars hugar af því þeir eru uppteknir við að tala í farsíma eða senda SMS skeyti úr þeim.
Í frétt í dagblaðinu Politiken í dag segir að ökumenn pallbíla megi búast við því að verða í þessari viku stöðvaðir oftar af lögreglu en ökumenn annarra bíla vegna farsímanotkunar, of hraðs aksturs, gruns um ölvunarakstur, of þungrar hleðslu eða lauss farms á pallinum, eða of lítils bils milli bíla.
The image “http://www.fib.is/myndir/Pallbilar.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Danska lögreglan fylgist sérstaklega með ökumönnum pallbíla þessa dagana.