Fyrst rafmagnsformúla – nú rafmagns Go-kart

Þýska tæknistórfyrirtækið Bosch hefur byrjað að framleiða rafknúinn go-kart keppnisbíl. Hann er mjög öflugur og nær 100 km hraða úr kyrrstöðu á minna en fimm sekúndum og kemst á 130 km hraða. Bæði þýska akstursíþróttasambandið og alþjóða akstursíþróttadeild FIA hafa þegar viðurkennt bílinn til keppni og var hann til sýnis í Berlín sl. laugardag, 21. maí þegar rafmagnskörtukappakstur var kynntur sem ný keppnisgrein.

Go-kart eða körtukappakstur er mjög vinsælt mótorsport í löndunum í kring um okkur og margir helstu Formúluökumenn hófu kappakstursferil sinn sem go-kart keppendur. Körtubílarnir hafa hingað til verið knúnir litlum bensínvélu - oftar en ekki tvígengisvélum sem bæði eru hávaðasamar og mjög mengandi.  Rafmagnskörturnar frá Bosch eru hins vegar hvorugt. Rafmagnskörtukappakstri fylgir enginn hávaði, engin bensín- og reykjarstybba.