Fyrsta boxerdísilvélin er komin

http://www.fib.is/myndir/Subbadiesel_kolvar.jpg

Fyrsta boxerdísilvélin nokkru sinni er nú veruleiki. Subaru sem alla tíð hefur lagt aðaláherslu á boxervélar hefur nú hannað fyrstu dísilvélina í heiminum með þessu byggingarlagi og verður hún frumsýnd á Genfarbílasýningunni sem hefst eftir tæpan mánuð. Boxervélar eru með lárétta stimpla sem ligga hver á móti öðrum (eins og í gömlu VW bjöllunni). Boxer-byggingarlagið þýðir að hægt er að hafa sveifarásinn styttri en í hefðbundnum vélum með lóðrétta stimpla og boxervélarnar eru þýðgengari auk þess sem þyngdarpunkturinn í bíl með boxervél liggur neðar en í hinum.

Subaru sem er deild í japanska þungaiðnaðarfyrirtækinu Fuji Heavy Industries er með minni bílaframleiðendum en hefur alla tíð haft sérstöðu sem falist hefur í boxervélum og sítengdu aldrifi. Subaru bílar voru með allrafyrstu fjórhjóladrifs fólksbílum. Á Evrópumarkaði hefur það háð Subaru seinni árin að geta ekki boðið upp á dísilfólksbíla en með nýju dísilvélinni verður á því breyting.

Engar nákvæmar upplýsingar um nýju dísilvélina hafa verið birtar af hálfu Subaru ennþá aðrar en þær að hún sé með túrbínu og millikæli eins og reyndar velflestar aðrar dísilvélar. Dísilvélin verður í fyrstunni í Legacy og kemur dísil-Legacybíllinn á Evrópumarkað undir lok þessa árs eða í byrjun 2008. Hún verður fjögurra strokka en sex strokka dísilvél mun koma síðar.