Fyrsti jepplingur Peugeot/Citroen sýndur í Genf

http://www.fib.is/myndir/Citroen%20C-Crosser.jpg http://www.fib.is/myndir/Peugeot4007.jpg
Citroen C-Crosser tv. og Peugeot 4007.

Fyrsti jepplingur PSA (Peugeot-Citroen) verður frumsýndur á bílasýningunni í Genf sem opnuð verður eftir rúmar þrjár vikur. Sem Peugeot hefur bíllinn gerðarheitið 4007 og hjá Citroen C-Crosser. En í raun er um að ræða hinn nýja Mitsubishi Outlander en hægt verður að líta bílinn undir öllum þremur nöfnunum á sýningunni í Genf.

Peugeot-Citroën (PSA) eru með þeim síðustu af evrópsku bílaframleiðendunum til að elta slyddujeppatísku undanfarinna ára og koma fram með slíkan bíl. Nú geta franskir bílakaupendur eignast fjórhjóladrifinn jeppling með allt að sjö sætum og það sem best af öllu er – með frönsku nafni. Til að ljá bílnum franskan svip og yfirbragð hafa Frakkarnir stílfært framendann upp á franskan máta og breytt innréttingu, mælaborði og stórntækjum þannig að fólkið í bílnum fái franska tilfinningu fyrir þessum annars upprunalega japanska bíl.

PSA-jepplingurinn er í fimm sæta útgáfunni ágætlega rúmgóður með þokkalegu farangursrými. Farangursrýmið verður hins vegar í minna lagi með sjö sæta innréttingunni eða einungis 184 lítra.

En öftustu sætaröðinni er eins og í hinni upprunalegu Mitsubishi-útgáfu mjög haganlega fyrirkomið og mjög auðvelt er að fella hana niður í „kjallara“ bílsins og myndast þá slétt gólf. Með henni niðurfelldri er farangursrýmið 463 til 510 lítrar eftir því hversu framarlega aftursætaröðin (miðröðin) er höfð. Sætaröðin er á rennisleðum sem leyfa 8 sm færslu afturábak. Ef flytja á mikinn farangur er sætaröðin skipt 60/40 og má þá leggja hvoran helming um sig saman og velta upp að framsætunum. Gólffestingarnar fyrir sætin eru segulfestingar og þær eru þá opnaðar með því að ýta á takka í farangurrýminu.
http://www.fib.is/myndir/Outlander_7184.jpg
Aðalvélin í Peugeot 4007 og Citroën C-Crosser er eins og hjá Mitsubishi; 2,2 llítra 156 ha. dísilvél. Hún er með samrásarinnsprautun, túrbínu og millikæli eins og flestar fólksbíladísilvélar nú til dags eru, og vinnslan 380 Nm viö 2000 sn/mín.
Og eins og hjá Mitsubishi er hægt að stjórna fjórhjóladrifinu þannig að hægt er að aka einungis í framhjóladrifi eða í fjórhjóladrifi þar sem tölva miðlar afli milli fram og afturhjóla eftir aðstæðum og aksturslagi, eða þá að læsa milli fram- og afturhjóla.

Loks er rétt að birta mynd af „originalnum“ Mitsubishi Outlander. Myndin er tekin þegar nýjasta kynslóð þessa bíls var kynnt evrópskum blaðamönnum á Spáni seint á síðasta ári.