Fyrsti stóri sendibíll landsins sem knúinn er rafmagni

Veitur hafa fengið afhentan nýjan sendibíl sem einungis er knúinn rafmagni. Bíllinn er af gerðinni Iveco og er fluttur inn af Kraftvélum í Kópavogi. Er bíllinn fyrsti rafknúni sendibíllinn í þessum stærðarflokki hér á landi og munu vinnuflokkar í viðhaldsþjónustu nota hann í verkefnum út um alla borg.

Veitur hafa sett sér metnaðarfull markmið þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig ætla Veitur að vera orðið kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2030 en stærsta skrefið í þá átt verður að gera bílaflota fyrirtækisins vistvænan. Því markmiði Vilja Veitur ná árið 2026. Orkuskipti bílaflotans hófust fyrir nokkru og vel hefur gengið að að skipta út fólksbílum sem notaðir hafa verið í rekstrinum en ekki hefur verið um auðugan garð að gresja þegar kemur að stærri bílum og tækjum.

Við afhendingu bílsins sagði Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna að orkuskipti í samgöngum væru ekki bara nauðsynleg fyrir umhverfið.  ,,Okkar reynsla af rekstri rafbíla sýnir að þeir eru einnig jákvæðir fyrir fjárhaginn. Framleiðendur stærri vinnutækja eru einnig farnir að sjá ávinninginn af framleiðslu sem nýtir aðra orkugjafa en þá sem fara illa með umhverfið. Það mælir því allt með því að orkuskipta bílaflotanum og við ætlum að vera í fararbroddi á þeim vettvangi."

Á myndinni má sjá Ívar Þór Sigþórsson, sölustjóra atvinnubifreiða hjá Kraftvélum og Ólaf Helga Harðarson rafvirkja sem tók við bílnum fyrir hönd Veitna.