Fyrsti tengiltvinnbíll Toyota 2010

http://www.fib.is/myndir/Toyotur.jpg
Nýr Toyota-tvinnbíll, stærri en Prius er væntanlegur á næsta ári. Þá er nýr Lexus tvinnbíll einnig væntanlegur, sem og ný kynslóð Toyota Prius. 

Masatami Takimoto þróunarstjóri Toyota sagði á ráðstefnunni Environmental Forum í Tokyo í gær, miðvikudag, að von væri á tveimur nýjum gerðum tvinnbíla á næsta ári til viðbótar við nýja kynslóð Toyota Prius sem líka er væntanleg. Hann sagði að framleiðsla á líþíum-jónarafhlöðum fyrir bíla hæfist hjá Toyota á næsta ári og strax á þarnæsta ári – 2010, kæmi fyrsti fjöldaframleiddi tengiltvinnbíll Toyota á markað í Japan, Evrópu og Bandaríkjunum.

Tengiltvinnbíll er bíll sem fyrst og fremst keyrir á rafmagni og hægt er að hlaða geymana með því að stinga í samband við venjulega rafmagnsinnstungu. En í honum er brunahreyfill sem fer sjálfvirkt í gang og snýr rafali sem framleiðir straum inn á geymana þegar lækka tekur á þeim.  

Gríðarlegur áhugi er um allan hinn vestræna heim á rafbílum og tvinnbílum - ekki síst tengiltvinnbílum - um þessar mundir. Toyota hefur hingað til haft afgerandi forystu í þessum málum með Toyota Prius og Lexus tvinnbíla sína um langt árabil, en samkeppnin fer harðnandi. Hækkandi olíuverð hefur hert mjög á rannsóknum og tilraunum undanfarna mánuði og árangurinn er óðum að koma í ljós.

Þróunarstjóri Toyota greindi líka frá því á fyrrnefndri ráðstefnu að þróunarvinna Toyota við öflugar og fljóthlaðanlegar líþíum-jónarafhlöður væri það langt komin að fjöldaframleiðsla á þeim geti hafist strax á næsta ári – 2009. Ný verksmiðja er tilbúin fyrir framleiðsluna. Hún er í bæ sem heitir Shizuoka, skammt suðvestan Tokyoborgar. Verksmiðjan er samvinnuverkefni Toyota og Panasonic EV.