Fyrsti útprentaði rafbíllinn

Litli tveggja sæta bíllinn á myndunum – Strati - er fyrsti rafbíllinn í veröldinni sem búinn er til á þann hátt að hann er prentaður út í rísastórum þrívíddarprentara. Strati er settur saman úr 49 hlutum. Venjulegur bíll er samsettur úr 25 þúsund hlutum. Sá er munurinn. Hér má sjá útprentun á Strati bíl á bílasýningunni í Detroit.

Það er fyrirtæki sem heitir Local Motors sem hyggst reisa um 100 „bílaprentsmiðjur“ víðsvegar um heiminn. Prentvélarnar prenta út burðarvirki bílsins og alla yfirbyggingu en vélar, gangverk, hjóla- og stýrisbúnaður er allt framleitt og smíðað á hefðbundinn hátt og síðan skrúfað í „útprentunina“ þegar hún er tilbúin. Framkvæmdastjóri Local Motors, Jay Rogers, var í viðtali við bílaþáttinn Turbo í franskri sjónvarpsstöð sl. laugardag sem var tekið upp á bílasýningunni í Detroit. Að viðtali loknu fóru Rogers og sjónvarpsfréttamaðurinn í stutta ökuferð á tilbúnum Strati bíl sem knúinn var rafmótor.

http://fib.is/myndir/Strati-Prentun.jpg
Útprentun á Strati bíl í fullum gangi.

Rogers sagði að hönnun bílsins hefði hafist fyrir tæpum fimm mánuðum en sjálf útprentunin eins og sú sem fram fór á bílasýningunni í Detroit, tæki um 44 klst. En með tíð og tíma myndi prenttíminn styttast talsvert eða niður í 24 klst.  Einfaldleikinn væri algert grundvallaratriði og hann endurspeglaðist einmitt í því hversu bíllinn er samsettur úr fáum hlutum. Sjálft efnið sem bíllinn er prentaður úr er koltrefjastyrkt plastefni sem kemur heitt úr prentaranum. Þegar það kólnar verður það bæði níðsterkt, létt og endist von úr viti þar sem það hvorki ryðgar né fúnar. Local Motors vinnur nú að því að þróa sjálfa prentunina þannig að hægt sé að prenta út einstaka hluta yfirbyggingarinnar þannig að þeir verði með mismundandi hörku. Þannig yrðu sæti og mælaborð úr mýkra efni en allar styrkingar og veltibogar harðari til að mæta betur ákomum og verja fólkið betur.  

Samkvæmt því sem Rogers sagði í sjónvarpsviðtalinu verða Strati bílar fáanlegir til kaups undir lok þessa árs eða í upphafi næsta og munu þeir kosta milli 18 og 30 þúsund dollara, eftir stærð og búnaði. Með aukinni framleiðslu muni verðið lækka. Hann sagði að ætlunin væri að reisa verksmiðjur víða og framleiðslan á hverjum stað ráðast að nokkru af aðstæðum á hverju framleiðslusvæði. Þannig yrðu bílar framleiddir í Alaska að þola vel kulda og bílar íframleiddir í Utah að þola vel hita og eyðimerkursól.