Fyrstu deilibílar Hopp komnir á götur borgarinnar

Hopp í samstarfi við Höld-Bílaleigu Akureyrar bjóða nú upp á að hægt verði að finna 10 rafbíla í Hopp appinu og leigja í skammtímaleigu innan Reykjavíkur. Hopp hefur leigt út skútur undanfarin ár en nú hyggst fyrirtækið bæta við fleiri faratækjum og nú verður boðið upp á rafdeilibíla.

Hopp hefur verið að skoða möguleikann á að bjóða upp á deilibílalegu á bílum og hafa nú tekið upp samstarf við Höldur-Bílaleiga Akureyrar. Forsendur fyrir samstarfi þessarra tveggja fyrirtækja, sem bæði setja umhverfismál í forgang hjá sér, voru strax til staðar og var hafist handa við að klára hugbúnaðinn hjá Hopp ehf. og finna rafbílana frá Bílaleigu Akureyrar um miðjan febrúar.

Byrjað verður með 10 rafbíla til þess að mæla eftirspurn, safna gögnum og mælingum, prufukeyra appið og þróa þjónustuna. Hugbúnaðurinn er íslenskur, hannaður og forritaður af Hopp ehf. Stefnan er að fjölga deilibílunum jafnt og þétt á næstu mánuðum til að mæta eftirspurn.

Rafbílarnir verða staðsettir á borgarlandinu og það má leggja þeim í öll lögleg bílastæði, einnig gjaldskyld. Notandinn getur því skilið bílana eftir þar sem honum hentar og er laust stæði. Notendurnir finna bílana í Hopp appinu, skanna þá og á innan við 2 mínútum er notandinn búinn að staðfesta/sannreyna ökuskírteinið sitt, samþykkja skilmála og aka af stað. 

Það kostar 300 kr. að starta bílum og mínútugjaldið er 45 kr. Það mun því kosta um 660 kr. að hoppa frá Háskóla Íslands og út á Granda. Til að byrja með verður aðeins hægt að leggja deilibílunum innan Reykjavíkur en hægt er að keyra bílinn út fyrir svæðið og setja bílinn þá á pásu og aka honum svo aftur inn á svæðið. En að setja bílinn á pásu kostar 10 kr. mínútan. Samkvæmt upplýsingum Hopp hafa vinsældir deilibíla í aukist jafnt og þétt í borgum á undanförnum árum.