Fyrstu rafmagnsvegir Svíþjóðar

Í liðinni viku opnuðu ráðherrar samgöngu- og orkumála formlega fyrsta vegarspottann í Svíþjóð semkalla má rafmagnsveg. Um er að ræða tveggja kílómetra kafla af E16 veginum utan við Sandviken.

Rafmagnsvegurinn er tilraunaverkefni sem standa mun í tvö ár. Yfir veginum eru nú raflínur sem hlaða eiga rafgeyma stórra rútu- og flutningabíla sem eru að hluta eða öllu leyti knúnir rafstraumi. Bílarnir verða með snertislá eins og rafmagnslestir og sporvagnar. Sláin lyftist upp og snertir raflínuna og leiðir strauminn frá henni í geyma bílanna.

Annað svipað verkefni er í uppsiglingu á vegarkafla utan við Arlanda, skammt frá Stokkhólmi en munurinn er þó sá að þar eru rafmagnskaplarnir undir vegyfirborðinu en segulsviðið út frá þeim sér um að hlaða geyma bílanna, ekki ósvipað því hvernig rafmagnstannbustar eru hlaðnir.

Bæði þessi tilraunaverkefni verða í gangi frameftir næsta ári. Tilgangur með þeim er sá að sjá hvort þau gangi upp tæknilega og fjárhagslega í venjulegri umferð.