Gamli Ford 100 ára

http://www.fib.is/myndir/Ford-T-litil.jpg
Ford T frá fyrsta framleiðsluárinu 1908.

Á þessu ári verður öld liðin frá því að framleiðsla á Ford T, fyrsta færibandsbyggða bíl bílasögunnar hófst. Það var í september 1908. Hætt var að framleiða Ford T árið 1927 en þá höfðu rúmlega 15 milljón eintök verið byggð. Afmælinu verður fagnað það sem eftir er ársins en hátíðarhöldin hófust um síðustu helgi í Florida.

Hátíðahöldin hófust á eynni Amelia Island um síðustu helgi og þar gaf að líta mikinn fjölda Ford T bíla og fleiri gerðum gamalla Fordbíla. Næsta hátíðarlota verður svo í Kaliforníuá mikillli Ford-samkomu sem nefnist The Fabulous Fords Forever. Hin þriðja og stærsta verður síðan í borginni Richond í Indiana. Sú hátíð nefnist T Party 2008 og þar verða fleiri T-Fordar samankomnir á einum stað en nokkru sinni áður í bílasögunni. Búist er við um eða yfir þúsund T-Fordum til hátíðarinnar hvaðanæva úr heiminum en þegar hafa eigendur 700 slíkra eðalvagna boðað komu sína.http://www.fib.is/myndir/Ford-T-st.jpg

Sala á T-Fordinum hófst síðla árs 1908 og vegna hagkvæmni fjöldaframleiðslunnar var verðið allt annað og lægra en áður hafði þekkst. Aðrir bílaframleiðendur neyddust fljótlega til að endurskipuleggja framleiðslu sína í framhaldinu til að mæta samkeppninni við Henry Ford og T-Fordinn hans. Sú endurskipulagning leiddi til þess að færibandaframleiðsla varð almenn í bandarískum bílaiðnaði upp úr 1914.

T-Fordinn er þannig fyrsti bíllinn sem venjulegt alþýðufólk réði við að eignast og almenningur tók bílnum með fögnuði. Ford T var einfaldur bíll og miðað við aðra bíla þess tíma. Hann var léttbyggður og auðveldur í akstri og viðhaldi. Þyngd bílsins var einungis 550 kíló, vélin var fjögurra strokka, 20 hestafla og gírkassinn einskonar fótvirk sjálfskipting með tveimur hraðastigum áfram (High og Low) og afturábakgír. Hámarkshraðinn var rúmlega 70 km á klst. Þegar framleiðslan loks hætti 19 árum síðar höfðu 15 milljón T-Fordar verið byggðir. http://www.fib.is/myndir/Crosseng.jpg