Gamli Landróver neitar að deyja

Hinn sígildi Land Rover Defender sem framleiddur hefur verið óslitið frá 1948 án stórfelldra útlitsbreytinga neitar að deyja. Síðustu árin hefur verið marg tilkynnt að framleiðslunni verði senn hætt en alltaf skrimtir sá gamli áfram.

Nú síðast gerðist það  á bílasýningunni í Frankfurt í nýliðnum september að arftaki gamla Landróversins var sýndur og jafnframt tilkynnt að endalok þess gamla væru skammt undan. Nú hefur það verið dregið til baka að nokkru leyti því að nýjasta fréttin er sú að nýi arftakinn komi á markað 2015 og að sá gamli muni lifa áfram og verða seldur samhliða þeim nýja til ársins 2017 að minnsta kosti og sennilega talsvert lengur.

Hinn nýi arftaki Land Rover Defender nefnist DC100. Hann vakti vissulega athygli í Frankfurt í september en kveikti kannski ekki þá hrifningu sem framleiðandinn hafði vænst. En fyrst gamli Defenderinn gengur svona vel, hversvegna ætti þá að hætta við hann? 

Ástæðan er einfaldlega sú að bæði Defenderinn sjálfur sem og verksmiðjan sem byggir hann er hvorttveggja orðið gamaldags og framleiðslan of dýr auk þess að erfitt er að uppfylla nýjustu lög og reglur um mengun (E6 mengunarstaðal) og endurvinnsluhlutfall. LandRover stóð því frammi fyrir tveimur kostum: Annarsvegar þeim að koma sem fyrst fram með arftaka Defendersins og hætta framleiðslunni. Hinsvegar að endurhanna flesta innviði gamla en láta útlitið halda sér eins og kostur er, sem er  er mjög dýrt og erfiðtt í framkvæmd. Því virðist sem fundin sé einhverskonar millileið sem er sú að endurbæta og breyta þeim atriðum sem helst eru á skjön við nýjustu mengunarreglur og halda framleiðslunni áfram samhliða nýjum arftaka hins grófa og hráa Defenders sem svo margir virðast eiga erfitt með að sjá á bak. Það sem gerir þetta mögulegt er að gamli LandRover Defender flokkast sem vörubíll og aðrir staðlar gilda um vörubíla en fólksbíla.