Geely í Evrópu frá 2009

http://www.fib.is/myndir/Geely-gulur.jpg

Kínverski bílaframleiðandinn Geely hefur tilkynnt innrás í Evrópu frá 2009. Fyrirtækið ætlar að sýna bíla sína á Frankfurt bílasýningunni í næsta mánuði. Auk Geely munu fleiri kínverskir bílaframleiðendur sýna vörur sínar í Frankfurt.

Fáeinir kínverskir bílar hafa áður verið sýndir á stóru bílasýningunum í Evrópu, m.a. Brilliance og Landwind sem systurfélag FÍB í Þýskalandi, ADAC hefur tekið báða í árekstursþolpróf. Eins og áður hefur verið greint frá hér á fréttavef FÍB var útkoma beggja bílanna í árekstursprófunum afleit og segja tæknimenn ADAC að þetta séu lélegustu bílar sem þeir hafi nokkrusinni prófað

Samkvæmt frétt frá Geely er ætlunin að byrja sóknina inn á evrópskan bílamarkað í Þýskalandi með tveimur gerðum af meðalstærð. Þær heita FC-2 og FC-3 og verða á verði sem er talsvert undir meðalverði slíkra bíla, eða frá 7600 til 11.500 evrur.

Geely flytur þegar út bíla til S. Ameríku, Afríku, Úkraínu, Sýrlands og Rússlands. Bæði Geely og annar kínverskur bílaframleiðandi; Chery, hafa nýverið undirritað samstarfsamninga við Chrysler um að þróa í sameiningu og framleiða bíla af smá- og millistærðum fyrir bílamarkaði í Kína, N. Ameríku, S. Ameríku og Evrópu.