Geely líklegur framtíðareigandi Volvo

Ford Motor hefur útvalið hið kínverska bílafyrirtæki Geely sem líklegastan kaupanda Volvo Personvagnar í Svíþjóð. Það þýðir að önnur fyrirtæki sem sýnt hafa áhuga á að eignast Volvo eru meira og minna úr sögunni. Þeirra á meðal er sænska félagasamsteypan Jakob og sænsk-bandarískt félag sem heitir Crown. Ford Motor sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun um málið. Í henni segir að  Ford líti á Geely sem „Preferred bidder“ eða þann aðila sem þeir hyggist halda áfram að semja við um framtíð Volvo.

Með þessu virðist ljóst að sænsku félögin tvö sem fyrr eru nefnd hafi ekki tekist að sýna fram á fjárhagslegt bolmagn til að yfirtaka Volvo en óstaðfestar fregnir eru um að boð Geely í Volvo sé virði um 17 milljarða sænskra króna.
Í samningum við stjórnendur Ford nýtur Geely liðsinnis hins breska Rotschild banka og í ráðgjafahópi bankans eru hvorki meira né minna en tveir fyrrum forstjórar Volvo; Pehr G Gyllenhammar og Hans-Olov Olsson.

Sænskir fjölmiðlar hafa eftir fjármálastjóra Ford, Lewis Booth, sem reyndar er gamall stjórnarformaður Volvo, að  Geely sé lang vænlegasti eigandinn af þeim fyrirtækjum sem sýnt hafa áhuga á því að eignast Volvo. Nú verði reynt að ná samkomulagi sem verði öllum hagstætt. Markmiðin séu að Volvo styrkist fjárhagslega og fái aðgang að nýjum mörkuðum, Ford Motor geti einbeitt sér betur í að sækja fram undir eigin merki. Geely sem eina kínverska bílafyrirtækið í einkaeigu, hafi sannað sig svo um munar og verði örugglega góður og ábyrgur eigandi sem skapa muni Volvo það sjálfstæði og svigrúm sem fyrirtækið þarfnist.