Geely sækir inn á alþjóðlegan markað leigubíla

LEVC TX rafmagnsleigubíllinn.
LEVC TX rafmagnsleigubíllinn.

Kínverski bílaframleiðandinn Geely sem er aðaleigandi Volvo, keypti fyrir fáum árum London Taxi Company, framleiðanda Lundúnaleigubílanna heimsþekktu. Nú ætlar Geely að sækja inn á heimsmarkað leigubíla með rafknúinn Lundúnaleigubíl. Af því tilefni hefur verið skipt um nafn á fyrirtækinu og heitir það nú LEVC sem er skammstöfun á London Electric Vehicle Company.

Hinn nýi alþjóðlegi Lundúnaleigubíll kallast TX og byggðar hafa þegar allmargar frumgerðir af honum og ítarlegar prófanir á þeim þegar farið fram, aðallega í Bretlandi. Þar sem bíllinn verður, eins og gamli Lundúnaleiguvagninn hefur verið alla tíð - handbyggður að mestu leyti, svipað og Rolls Royce og fleiri, og þannig ekki um eiginlega fjöldaframleiðslu á færibandi að ræða. Hann verður framleiddur að mestu eftir pöntunum og byrjað verður formlega að taka við pöntunum á honum í ágústmánuði nk. Það er þó ekki alveg svo því að nú þegar er LEVC byrjað að byggja 325 bíla fyrir hollenska leigubílaútgerð sem heitir RMC. Þá á að taka í notkun strax á næsta ári.

TX leigubíllinn er rafknúinn en með innbyggðri bensínrafstöð sem fer sjálfvirkt í gang þegar lækkar á geymunum. Drægi hans á rafgeymunum einum er rúmlega 160 kílómetrar og á honum eru tenglar svo stinga má honum í samband við venjulega raftengla og hraðhleðslustöðvar.
TX er ætlað að taka alfarið við af gömlu dísilknúnu Lundúnaleigubílunum sem hætt verður að framleiða nú.

-SÁ