General Motors byrjar árið vel í Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Astra-o7.jpg
Opel Astra 2007 - gengur vel í Evrópu.

Þótt GM eigi í basli á heimavelli í USA er ekki sömu sögu að segja í Evrópu. Þar er rífandi gangur og 10% söluaukning varð í nýliðnum janúar miðað við sama mánuð í fyrra. Markaðshlutdeild GM í Evrópu reyndist 9,5% og hefur ekki verið hærri í tíu ár.

Alls seldust 165.043 GM bílar í Evrópu í janúarmánuði eða 17.631 fleiri en í fyrra og markaðshlutdeildin jókst um 0,7% prósentustig upp í 9,5%. Aukningin er fyrst og fremst í Opelbílum og breska systurbílnum Vauxhall en af þeim seldust 130 þúsund stykki sem er 8,1% aukning í vörumerkinu. Þá tók kóreska Chevrolet merkið undir sig mikið stökk en af þeim bílum seldust í sl. janúar 28.359 bílar eða 41,5% fleiri en í sama mánuði í fyrra.

Samdráttur varð í sölu á Saab í Evrópu sem nam 6,4% en alls seldust 6.573 bílar. Loks seldust líka 360 Cadillac, 142 Hummer og 98 Chevrolet Corvetter í janúarmánuði.

En GM gengur líka vel í Kína. Þar seldust í janúar 101.926 bílar og er þetta í fyrsta sinn sem GM hefur slt yfir 100 þúsund bíla í einum mánuði. Allt árið í fyrra seldust tæplega 900 þúsund GM bílar í Kína og lofar því nýliðinn janúarmánuður góðu um framhaldið hjá GM.