Gera þarf samninga í samræmi við lög og reglur

Það er mikið klúður að Reykjavíkurborg hafi þurft að slökkva á 156 hleðslustaurum fyrir rafbíla, segir Runólfur  Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Málið verði flóknara eftir því sem það dragist á langinn að því fram kemur í samtali við Runólf á ruv.is

 Eftir hádegi í gær fóru starfsmenn Orku náttúrunnar (ON) og gerðu óvirkar 156 götuhleðslustöðvar á þrjátíu stöðum í borginni. Það tók skamma stund. Kærunefnd útboðsmála ógilti samning Reykjavíkurborgar við Orku náttúrunnar.

Fyrirtækið Ísorka kvartaði þegar ON bauðst til að stöðva gjaldtöku á hleðslustöðvunum. Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir svörum frá Reykjavíkurborg og Orku náttúrunnar fyrir næstkomandi  miðvikudag.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir þetta klúður sem þarf að finna lausn á. Mér finnst það tilfinning að kenna sendiboðanum um.

,,Auðvitað þurfa menn að gera samninga í samræmi við lög og reglur. Við treystum því að hægt verði að opna hleðslustöðvarnar fljótlega. Málið flækist ef það dregst á langinn,“ segir Runólfur. Hann segir að margir geti ekki hlaðið bíl heima hjá sér, sérstaklega í eldri hverfum borgarinnar. Þeir treysti því á hleðslustöðvarnar í borginni.