Gera þarf verðsamanburð bílatrygginga mögulegan

Í nýútkomnu FÍB blaði er fjallað um hvernig Samkeppniseftirlitið geti beitt afli sínu til að afhjúpa þá leynd sem hvílir yfir iðgjaldaákvörðunum tryggingafélaganna. Staðreyndin er sú að engin leið er fyrir FÍB eða almenning að gera einfaldan verðsamanburð á iðgjöldum bílatrygginga. Tryggingafélögin gera aðeins tilboð til einstaklinga og fyrirtækja.

Auðveldur verðsamanburður er besta leiðin til að stuðla að samkeppni. Tryggingafélögin munu ekki gera það mögulegt ótilneydd. FÍB bendir á að Samkeppniseftirlitið getur beitt sér fyrir breytingum. Í 16. grein samkeppnislaga eru víðtækar heimildir fyrir Samkeppniseftirlitið til að grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni. FÍB hefur sent erindi þessa efnis til Samkeppniseftirlitsins og mun fylgja því eftir af þunga.