Vegamálastjóri - gestirnir okkar taki þá þátt í því að fjármagna vegakerfið

FÍB hefur fengið sterk viðbrögð frá félagsmönnum í kjölfar viðtalsins við vegamálastjóra í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Það vekur athygli að forstjóri ríkistofnunar leggi til nýja skatta á íslenska vegfarendur vegna aukins álgas frá erlendum ferðamönnum.Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar segist hlynnt því að teknir verði upp vegtollar eða veggjöld. Hún segir vegakerfið sprungið enda sé það byggt upp fyrir fámenna þjóð en við það bætist svo tvær og hálf milljón ferðamanna. 

Bergþóra var ennfremur innt eftir því hvernig hægt væri að fjármagna nauðsynlegar endurbætur á vegakerfinu og sagðist hlynnt vegtollum: 

„Ég segi það, það er bara mín persónulega skoðun, ég á erfitt með að sjá það að 350 þúsund manna þjóð í þessu stóra landi muni nokkurn tíma geta byggt þetta kerfi upp án þess að taka upp einhverja fjármögnun eins og vegtolla eða þess háttar þannig að gestirnir okkar taki þá þátt í því að fjármagna það með einhverjum hætti. Eða þá með einhverjum öðrum hætti, sem sagt að það komi einhvern veginn fjármagn inn í kerfið. En já, ég er bjartsýn á það að það takist vegna þess að ég er nú bara bjartsýn að eðlisfari. Og þetta aukna álag sem er á kerfið kemur frá fólki sem kemur hingað og vill nota þetta kerfi. Og ég geri þá bara eiginlega ráð fyrir því að þessir túristar, sem hingað vilja gjarnan koma, að þeir séu tilbúnir að borga einhvers konar gjald fyrir það að nýta innviðilandsins,“ segir hún.  

Nánar má sjá hér viðtalið á Rás 2.