Geta bílar verið grænir?

http://www.fib.is/myndir/Kolefnisjofnun.jpg

Geta bílar verið grænir? Spyrja Neytendasamtökin í frétt á heimasíðu samtakanna.

Í fréttinni gagnrýna samtökin auglýsingar Heklu hf. um kolefnisjöfnun nýrra VW bíla undir yfirskriftinni „Þeir eru allir grænir.” Þetta telja Neytendasamtökin vera villandi fullyrðingu og hafa kvartað til Neytendastofu. „Bílar eru langt frá því að vera „grænir” ef hugtakið grænn er skilið sem „umhverfisvænn” eins og berlega er gefið í skyn í þessari auglýsingaherferð,“ segir í frétt Neytendasamtakanna.

Hekla hf. hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar Neytendasamtakanna. Þar segir að því hafi aldrei verið haldið fram að útblástur frá frá nýjum Volkswagen sé skaðlaus fremur en útblástur bila almennt. Síðan segir: „ Það sem auglýsingar fyrirtækisins segja er að vegna þess að HEKLA hefur gert samning um að styrkja skógrækt sem bindur kolefni sem samsvarar útblæstri allra nýrra Volswagenbíla fyrsta árið, þá sé Volkswagen umhverfisvænni og “grænni” kostur en margir aðrir sem í boði eru. Þess vegna tölum við um Volkswagen sem “grænan” bíl.

Í tilkynningu Heklu segir ennfremur að með kolefnisjöfnunarátaki sínu vinni HEKLA í anda þeirrar umhverfisstefnu sem Volkswagen verksmiðjurnar hafa fylgt á undanförnum árum en þær hafa lagt áherslu á þróun umhverfisvænna bíla sem eyða og menga minna. Í því sambandi má nefna sem dæmi þróun Tdi dieselvélarinnar sem hefur verið í fararbroddi sparneytinna dieselvéla. Einnig má nefna áherslu verksmiðjanna á framleiðslu Volkswagen sem ganga fyrir metangasi og sem talsvert hefur verið selt af hér á landi og er þá aðeins fátt eitt nefnt.