Getur munað allt að 100 þúsund krónum á ári að velja ódýrasta bensínið

Það getur munað frá 60 upp í 100 þúsund krónum á ári ef neytendur velja ódýrasta eldsneytið sem stendur þeim til boða. Verð á bensínlítri hefur hækkað um 4-6 krónur í september. Yfir 50 króna munur er ódýrasta og dýrasta lítranum. Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóri íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í fréttatíma á Rás 2 í morgun.

,,Við sjáum að munurinn er orðinn svo mikill á milli þeirra sem bjóða ódýrasta eldsneytið og þar sem það er dýrast. Í sumum landshlutum er einungis dýrasta eldsneytið í boði. Við sem neytendur hér á höfuðborgarsvæðinu höfuð mesta valið. Þegar við förum að horfa á þessar tölur þá getur munað fyrir venjulega bílafjölskyldu að reka bílinn frá 60 til 100 þúsund krónum yfir árið. Hvort tekið er eldsneyti þar sem það er dýrast eða þar sem það er ódýrast. Það þarf að afla sér tekna vel á annað hundrað þúsund króna til að hafa fyrir þeirri upphæð,“ sagði Runólfur Ólafsson.

Runólfur bendir ennfremur á að eldsneytisverð hafi fyrst lækkað með til komu Atlantsolíu og síðar Costco. Runólfur hvetur neytendur til að skoða verðin og velja það ódýrasta sem býðst hverju sinni.

Hvetjum neytendur til að vera vel á verði

,,Við sem neytendur höfum verið svolítið föst í því að vera ekki alveg nógu dugleg í því að skoða verðlagninguna. Á hverjum tíma hvetjum við neytendur til að skoða verðlagninguna og vera vel á verði. Það munar, held ég fyrir alla, að fá aukalega 100 þúsund krónur til að eiga fyrir nauðsynjum,“ sagði Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Eins og kom fram í umfjöllun á fib.is um helgina þá hefur bensín og dísilolía hækkað í verði á heimsmarkaði síðustu vikuna á sama tíma og íslenska krónan hefur aðeins gefið eftir gagnvart Bandaríkjadal. Bensín og dísilolía hér á landi hefur hækkað hjá flestum olíusölum um fjórar til sex krónur í september. Fyrir þá neytendur sem hafa val um breytileg verð á eldsneyti líkt og á höfuðborgarsvæðinu þá marg borgar sig að aka að ódýrustu dælunni.