Giftingin afstaðin

Nú, eftir hinn formlega samruna Fiat á Ítalíu og Chrysler í Bandaríkjunum rétt fyrir áramótin, er talsvert spekúlerað í því hvar  höfuðstöðvarnar verði. Verða þær í Torino á N. Ítalíu eða í Detroit? Ákvörðunin getur orðið talsvert snúin vegna þess að bæði Fiat og Chrysler eiga sér langa og merka sögu og hefðir í sinni hvorri heimsálfunni. Hvernig munu viðbrögðin verða hjá Ítölum ef höfuðstöðvarnar verða í Detroit- og öfugt?  

http://www.fib.is/myndir/Fiat-500-1957.jpg
Fiat 500 árgerð 1957.
http://www.fib.is/myndir/Fiat600multipla.jpg
Fiat 600 Multipla árg. 1960.
http://www.fib.is/myndir/Fiat_1100-58.jpg
Fiat 1100 árg. 1958.
http://www.fib.is/myndir/Fiat-500L.jpg
Fiat 500L árg. 2014.

Vitað er að Sergio Marchionne forstjóri Fiat og Chrysler vill að aðsetur yfirstjórnarinnar verði í Chrysler byggingunni í Detroit. Stjórn Chryslerdeildarinnar verði áfram í Auburn Hills, sem er í útjaðri Detroit og stjórn Fiat deildarinnar áfram í Torino á Ítalíu.

Fiat er gamalgróið fyrirtæki sem markað hefur hvað dýpst spor í stóriðjusögu Ítalíu, ekki síst með því að framleiða bíla við hæfi venjulegs vinnandi fólks. En Fiat framleiðir ekki bara bíla heldur líka traktora og þungavinnuvélar og vörubíla.

Eftir stríðslok 1945 lagði Fiat sig mjög fram um að auka og efla hreyfanleika fólks og kom í þeim tilgangi fram með einfalda, ódýra, sparneytna bíla á viðráðanlegu verði. Má þar sérstaklega nefna smábílana Fiat 500 og 600, Fiat 1100 og talsvert síðar Fiat Uno. Allar þessar gerðir og margar fleiri reyndar náðu miklum vinsældum og útbreiðslu, ekki bara á Ítalíu heldur um alla Evrópu.

Bílarnir frá Fiat hafa lengstum þótt einstakir hvað varðar hönnun þar sem notagildi og formfegurð fléttast saman. Gæðamálin hafa hins vegar á stundum verið upp og ofan. Bílar reyndust misjafnlega vel eftir því í hvaða verksmiðju þeir höfðu verið skrúfaðir saman. Þannig hafa Fíatar frá Torino og jafnvel Póllandi í seinni tíð þótt endingarbetri en bílar úr suður-ítölskum verksmiðjum. En í tæknilegu tilliti hefur Fiat ætíð verið framarlega. Fiatvélar hafa lengstum verið í sérflokki hvað varðar orkunýtingu og margvísleg véltækni sem breiðst hefur út til annarra framleiðenda hefur í tímans rás átt upphaf sitt hjá Fiat, t.d. samrásarinnsprautunin (Common Rail) fyrir dísilvélar.