Gíslatökur á Menningarnótt

Íbúar miðbæjarins þurftu að sæta því að vera læstir inni og vera harðlega bannað að nota heimilisbíla sína þótt líf lægi við sl. laugardag. Ekkert samráð var haft við þá um þessa innilokun heldur fengu þeir einungis skipanir að ofan frá yfirvöldum um að þeim væri meinað að nota bifreiðar sínar frá því eldsnemma á laugardaginn til miðnættis.

Ekki ósvipuðu valdboði fengu íbúar úthverfa borgarinnar að kenna á, vildu þeir njóta menningarhátíðarinnar í miðbænum. Þeim var ýmist sagt að ganga, hjóla eða taka strætisvagna til að komast í miðbæinn, eða koma á bílnum á tiltekna staði þar sem þeir gætu lagt bílum sínum í stæði og tekið strætó seinasta spölinn í miðbæinn. Þessi stæði voru fljót að fyllast og samviskusamir úthverfabúar sem lögðu bílum sínum utan merktra stæða fengu svo að kenna á því þegar að því kom að halda heimleiðis. Þá  var komið hátt sektarboð á bíla þeirra – fyrir að leggja utan skilgreindra bílastæða. Ekkert hafði verið gert í því að mæta því augljósa og skilgreina tímabundin bílastæði á opnum svæðum, túnum og melum við útjaðra miðbæjarins. En sektunarherir Bílastæðasjóðs og lögreglu voru hins vegar hafðir í fullri aukavinnu þennan hátíðisdag við að sekta fólk.

http://fib.is/myndir/Bilakos2.jpg
 

Nú þegar hátíðin Menningarnótt er afstaðin og rykið er sest væri æskilegt að borgaryfirvöld hugleiddu svolítið byggða- og umferðarmál höfuðborgarsvæðisins út frá þörfum íbúanna. Það sem við blasir er þetta:

Reykjavík er mjög dreifð og gisin borg – í rauninni klasi sveitaþorpa sem dreifð eru út um holt og móa. Milli gamla miðbæjarins og margra þessara þorpa, eins og Grafarholts, Grafarvogs, Elliðavatnsbyggðar og Hádegisholts, svo dæmi séu nefnd, er vegalengdin á annan tug kílómetra. Þrátt fyrir allt tal um að þétta byggðina í borginni þá hefur verið haldið áfram á þeirri braut að skipulegga sífellt ný og ný sveitaþorp. Eina byggðarþéttingin sem á sér stað er í gamla miðbænum og næsta nágrenni hans, þar sem svigrúm til þéttingar er tæpast til staðar. Markmiðum sínum vilja þéttingarmenn helst ná með því að vega að hreyfanleika fólks með því að leggja hindranir og trafala í veg bílaumferðar, jafnvel á stofnbrautum (þjóðvegum) og skipuleggja íbúðarhús og blokkir þar sem væntanlegir íbúar skulu með illu eða góðu vera án heimilisbíls.  

Þegar stórhátíð eins og Menningarnótt er haldin verða öfgarnar einhvernveginn skýrari. En borgaryfirvöld eru föst á sínu og virðast ekki fáanleg til að íhuga málin út frá fleiri sjónarmiðum en sínum eigin – þeim að bíllinn skuli útlægur gjör og fólk lifi lífinu án bíls, hjóli, taki strætó og helst léttlestir við fyrstu hentugleika. Í þeim anda þykir í fínu lagi að taka íbúa miðbjæjarins í gíslingu í tæpan sólarhring og taka bifreiðar langt að kominna úthverfisbúa í gíslingu, fyrir það að borgaryfirvöld sjálf stóðu sig ekki í stykkinu.