Gjaldtaka verður tekin upp á hraðhleðslustöðvum ON í byrjun febrúar

Frá 1. febrúar nk. hefur Orka náttúrunnar ákveðið að taka gjald fyrir notkun á hraðhleðslustöðvum sínum. Að því fram kemur í Fréttablaðinu í dag er búist við að hver hleðsla muni kosta á bilinu 400-500 krónur og að mínútan kosta 39 krónur. Rúmlega fjögur þúsund rafbílar eru skráðir hér á landi.

Fyrirhuguð hækkun og hvernig hún verður útfærð verður kynnt á næstu vikum en rafbílaeigendum mun gefast kostur á að skrá sig fyrir auðkennislyklum sem svipar til dælulykla olíufélaganna. Langflestir hlaða bílana sína heima hér á landi og kæmi ekki á óvart að þeim fjölgi enn frekar í kjölfar gjaldsins sem tekið verður upp enda mun ódýrari kostur.

Rekstur hleðslustöðvanna hjá Orku náttúrunnar hefur verið til skoðunar og í framhaldi af henni var ákveðið að taka gjald fyrir notkunina. Gert er ráð fyrir að gjaldtakan stytti hleðslutímann þar sem eigendur rafmagnsbíla muni síður hlaða bílinn í botn.

Að auki er talið að hleðslan nýtist best þegar geymirinn er ekki meira en 80% hlaðinn. Haft er eftir Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, í Fréttablaðinu að sú hleðsla taki 10-12 mínútur og myndi því hver hleðsla kosta 400-500 krónur. Áfram verði þó ódýrast að hlaða bílinn heima.

Hraðhleðslustöðvum ON hefur fjölgað mikið á þessu ári. Nú nýverið bættist við hraðhleðsla í Borgarnesi og ætlunin er að bæta við þremur nýjum á komandi dögum og vikum. Á næstu dögum mun þessi þjónusta við rafbílaeigendur einnig bjóðast í Freysnesi í grennd við Skaftafell, við Jökulsárlón, á Djúpavogi og við N1 á Egilsstöðum.

Á næstu vikum bætast svo við hlöður á Stöðvarfirði, við Minni-Borg í Grímsnesi, við Mývatn og við þjónustustöðvar N1 hvorttveggja við Lækjargötu í Hafnarfirði og í Mosfellsbæ. Hlöður ON verða orðnar fleiri en 50 í árslok 2018. ON á í samstarfi við fjölda aðila um uppbygginguna. Einna mikilvægastir eru þeir sem leggja til aðstöðu fyrir hlöðurnar og hefur N1 leikið þar stórt hlutverk.

Orka náttúrunnar tók forystu um uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á árinu 2014 og hefur fjöldi þeirra hér á landi fertugfaldast. Hlöður ON eru nú orðnar 20 víðs vegar um landið og þeim á eftir að fjölga til muna á næsta ári. Fyrstu hlöðurnar voru settar upp í Reykjavík 2014 og frá þeim tíma hefur rafbílum sem nýtt geta hlöðurnar fjölgað umtalsvert.