Gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum verður hætt í lok sumars

Innheimta veggjalda í Hvalfjarðargöngum verður hætt í lok sumars en fram kemur að það sé í takt við það sem samið var um áður en framkvæmdir við göngin hófust fyrir rösklega tuttugu árum síðan. Göngin, sem eru um 6 km löng, voru formlega opnuð 11. júlí 1998 en framkvæmdir hófust tveimur árum áður.

Vegfarendur hafa allar götur frá opnun greitt veggjald sem er í dag eitt þúsund krónur fyrir staka ferð fólksbíls. Haft er eftir Gísla Gíslasyni, stjórnarformanni Spalar, sem á og rekur Hvalfjarðargöng, að stefnt sé að því að afhenta ríkinu göngin í lok sumar. Endanleg dagsetning liggi ekki fyrir í þeim efnum.

Þjónustu við göngin hvað varðar öryggismál og viðhaldi þarf að sinna þó gjaldtöku verði hætt. Ríkið yfirtekur þá þjónustu en starfsemi Spalar verður hætt, að minnsta kosti í núverandi mynd.