GM aftur á hlutabréfamarkað

General Motors er að koma undir sig fótum á nýjan leik eftir gríðarlega erfiðleika sem enduðu í tæknilegu gjaldþroti fyrir rúmu ári. Í raun voru það ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Kanada og stéttarsamband bílasmiða sem forðuðu GM frá því að fara á hausinn með því að dæla í fyrirtækið peningum í formi bæði hlutafjár og lána.

En nú eftir mikla endurskipulagningu, eignasölu og mannaskipti í yfirstjórn er landið að rísa. Reksturinn gengur ágætlega og er byrjað að greiða til baka ríkislánin. Og nú vilja ráðamenn GM setja General Motors á ný á almennan hlutabréfamarkað og byrja með almennu hlutafjárútboði. Eins og nú háttar er General Motors að 90 prósentum í eigu bandaríska og kanadíska ríkisins og UAW sem er stéttarsamband bílasmiða. Bandarískir skattborgarar eiga þannig 60,8 prósent, kanadískir 11,7 prósent, UAW á 17,5 prósent og þau tíu prósent sem afgangs eru, eru í gömlum hlutabréfum sem voru skrifuð niður fyrir rúmu ári.

Ed Whitacre stjórnarformaður GM hefur ekki leynt þeirri skoðun sinni að GM eigi ekki að vera ríkisfyrirtæki stundinni lengur en nauðsynlegt er og að ríkisstjórnir USA og Kanada ættu nú að grípa tækifærið og selja sína hluti í GM hið allra fyrsta.

Fyrsta skrefið á þessari vegfarð var stigið í gær, miðvikudag, þegar sótt var um inngöngu á hlutabréfamarkaðinn og um að fram mætti fara hlutafjárútboð upp á 100 milljónir dollara. Meiningin er að það gerist í október nk. Fræðimenn um fjármál segja að þetta hlutafjáarútboð sé svo sem varla upp í nös á ketti. GM þurfi að minnsta kosti að krækja í svona 20 milljarða dollara svo vel sé.