GM bætir lausafjárstöðuna
Kirk Kerkorian.
Búist er við að brátt takist að ljúka sölu á 51% hlut í GMAC sem er fjármála- og lánafyrirtæki General Motors. Salan mun gefa GM 14 milljarða dollara í aðra hönd sem þýðir að gagnstætt Ford þarf GM ekki að taka lán og veðsetja eignir til að koma lausafjárstöðunni á sléttan sjó meðan á endurskipulagningu stendur.
Mörg merki eru um að GM sé að takast stig af stigi að vinna sig út úr margra ára fjámála- og rekstrarkreppu og er salan á GMAC einn áfanginn í þá átt. Af öðrum áföngum má nefna nýjar gerðir bíla bæði í Bandaríkjunum sjálfum og í Kóreu og mikið gæðaátak hjá Evrópudeildinni sem skilað hefur mun betri og rekstraröruggari bílum, t.d. hjá Opel. Sem dæmi um bíl frá Opel má nefna stóra fólksbílinn Opel Omega sem nú er hætt að framleiða. Sá bíll var um langt árabil orðlagður vandamálabíll. Sem dæmi um hið gangstæða nú ber að nefna smábílinn Opel Corsa sem er í hópi bíla með hvað lægsta bilanatíðni.
Ekki hefur enn verið gefið upp í smáatriðum hvernig sölunni á GMAC verður háttað. Fram hefur þó komið að kaupandinn er fjármálafyrirtæki sem heitir Cerberus Capital Management LP, en það eignast 51% hluta í GMAC og rekstur GMAC verður aðskilinn frá rekstri GM. Fjölmiðlar sem sérhæfðir eru í fjármálafréttum fullyrða að með aðskilnaðinum verði lánakjör kaupenda GM bíla hagstæðari en þau sem GM hefur getað boðið hingað til vegna þess hve fjárhagsstaða fyrirtækisins hefur verið þröng. Með rýmri lánakjörum fyrir kaupendur muni hagur GMAC vænkast og tekjur og hagnaður vaxa. Í bandaríska bílaiðnaðinum er það nefnilega viðurkennt að mun meiri ábati sé af bílalánum en af sjálfri framleiðslu bílanna.
Stærsti einstaki hluthafinn í GM, öldungurinn Kirk Kerkorian virðist hafa orðið að láta í minni pokann í togstreitunni við Rick Wagoner framkvæmdastjóra GM sem styrkt hefur stöðu sína. Kerkorian hefur brugðist þannig við að selja hluti sína í GM. Fyrir ekki svo löngu átti Kerkorian 9,9% en eftir sölu hluta í síðustu voiku var eign hans í GM komin niður í 7,4 en samkvæmt tilkynningu sem hann hefur sent út frá sér stefnir hann að því að koma hlut sínum niður í 5,5%.