GM býður upp á reynsluakstur

Í Reutersfrétt er greint frá því að General Motors í Bandaríkjunum hyggist bjóða væntanlegum kaupendum upp á reynsluakstur í fjórum bandarískum borgum á næstunni. Það sem nýtt er í þessu er það að fólk getur reynsluekið þeim GM bílum sem það hefur augastað á en líka sambærilegum bílum annarra framleiðenda.

Þeir bílar sem GM vill helst koma á framfæri með þessu móti eru Equinox, hinn stórvaxni Traverse jeppi og millistærðarfólksbíllinn Malibu. Reynsluakstur verður svo í boði á sambærilegum bílum frá Ford, Toyota og Honda.

„Þú kemur bara og prufukeyrir bílana þegar þér hentar og sleppur við að hlaupa milli bílasöluumboða til að fá samanburðinn,“ sagði sölustjóri GM við fréttamann Reuters. Þetta væri fyllilega í samræmi við nýtt söluslagorð GM um að besti bíllinn sigri að lokum. -Við spyrjum að leikslokum, bætti sölustjórinn við.

Þetta sölufyrirkomulag verður í boði frá og með þessu vori. Það hefst í fjórum borgum en mun breiðast þaðan út til fleiri borga ef vel gengur.