GM herðir á sölunni á heimavelli

http://www.fib.is/myndir/Saturn-Aura.jpg
Saturn Aura - er í raun Opel Vectra í Ameríkuútgáfu.

General Motors hefur fengið söluaðila sína til að taka upp harðari söluaðferðir á heimamarkaðinum, Bandaríkjunum. Meðal þeirra aðferða sem beitt er til að fá bílakaupendur til að ákveða sig fljótt, eru nú hafðir til staðar á sölustöðum GM sambærilegir bílar frá keppinautum GM sem viðskiptavinir fá að reynsluaka. Þeir sem koma á sölustaði til að skoða Saturn Aura bíla geta nú fengið að reynsluaka Toyota Camry og Honda Accord til samanburðar.

Bæði General Motors og Ford hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á gæðamálin í bílaframleiðslu sinni bæði á heimavelli sem og í Evrópu og eftir talsvert langt tímabil nokkuð hárrar bilanatíðni í t.d. Opel bílum eru Opel bílar nú komnir í hóp þeirra bíla sem lítið bila. Og í kjölfar hækkandi eldsneytisverðs hefur eftirspurn í Bandaríkjunum eftir stórum fólksbílum, jeppum og pallbílum minnkað mjög. Við því hefur GM meðal annars brugðist við með því að flyja Opel bíla til Bandaríkjanna þar sem þeir eru seldir lítilsháttar breyttir undir merkjum GM. Þannig er fyrrnefndur Saturn Aura í raun og veru Opel Vectra.

Kannanir meðal bandarískra neytenda sýna að mjög margir hafa þá trú að Japanir byggi miklu betri bíla en heimaframleiðendurnir GM, Ford og Chrysler. Við þessu er GM að bregðast með því að kaupa inn í stórum stíl bíla japönsku keppinautanna og láta viðskiptavinina prófa þá samhliða sínum eigin. Toyota Camry og Honda Accord eru meðal vinsælustu bíla í Bandaríkjunum um þessar mundir og það er því engin tilviljun að GM hefur einmitt valið fyrrnefnda tvo bíla til samanburðar við Opel Vectruna eða Saturn Aura.

Samkvæmt nýrri könnun JD Power í Bandaríkjunum á gæðum nýrra bíla (Initial Quality Study 2007) þar sem lagðar eru spurningar fyrir eigendur bílanna um hvaðeina sem viðkemur bílunum sjálfum og þjónustu við þá,  lendir Ford í efsta sætinu í fimm stærðarflokkum sem er mun betri árangur en hjá Mercedes og Toyota sem hrepptu efstu sætin í  þremur flokkum. Sem dæmi má nefna að lúxusbíllinn Lincoln færðist úr 12 sæti á síðasta ári í það þriðja nú, yfir bestu bifreiðategundina.