GM innkallar 200.000 Saab og Saturn bíla með Takata loftpúðum

Saab 9-3.
Saab 9-3.

General Motors innkallar um þessar mundir um 200.000 bíla af gerðunum Saab og Saturn í N. Ameríku. Innköllunin er hluti af mun stærra máli sem er innköllun á meir en 5 milljón bílum af ýmsum tegundum og gerðum sem eiga það sameiginlegt að vera búnir loftpúðum frá japanska framleiðandanum Takata.

Automotive News greinir frá þessu og hefur eftir heimildum frá GM að 180 þúsund innkölluðu bílanna séu í Bandaríkjunum og 20 þúsund í Kanada. Þeir Saab bílar sem um ræðir eru af gerðinni 9-3 árgerð 2003-2011, Saab 9-5 árgerð 2002-2011. Saturnbílarnir eru af gerðinni Astra af árgerðum 2008-2009. Allir bílarnir eru búnir Takata PSDI-5 loftpúðum ökumannsmegin fram í. Hætta er á að málmbrot úr sprengibúnaði púðanna geti slasað ökumenn bílanna eða jafnvel tekið líf þeirra.  

Engin meiðsli né dauðsföll hafa þó verið skráð í þessum umræddu GM bílum. Hins vegar eru allt að 10 dauðsföll skráð, sem rakin hafa verið til Takata loftpúða. Öll nema eitt þessara 10 atvika gerðust í Honda bifreiðum utan eitt.  

Nýlega innkölluðu þýsku bílaframleiðendurnir VW, Daimler (Mercedes) og BMW hver um sig yfir 800 þús bíla sem allir eru með samskonarTakata loftpúða-sprengibúnaði og ofannefndir Saab og Saturnbílar. Þessar síðustu Takata innkallanir koma í kjölfar yfirlýsingar frá Takata í sl. janúarmánuði að gallaðan loftpúðabúnað væri enn að finna í yfir fimm milljón bílum um allan heim og að þessa bíla bæri að innkalla.