GM kynnir Bandaríkjamönnum nýja smábíla í New York

http://www.fib.is/myndir/Chevrolet%20Trax.jpg
Chevrvolet Trax. Sýndur í New York 6. apríl.

Þegar bílasýningin í New York verður opnuð í Jacob Javits Convention Center þann 6. apríl nk. mun þar gefa að líta frumgerðir þriggja nýrra smábíla frá General Motors. GM hefur sent frá sér mynd af einum þeirra, smábíl sem nefnist Chevrolet Trax. Trax er hannaður í hönnunarstöð GM í S. Kóreu og í Kóreu er hann sömuleiðis byggður – og verður væntanlega, ef eða þegar hann fer í framleiðslu.

General Motors er að rétta vel úr kútnum eftir áralöng vandræði og bílaframleiðslan nú loksins tekin að skila arði. Það er ekki síst að þakka Daewoo í Kóreu sem er í eigu GM að stórum hluta. Þar eru byggðir ódýrir og einfaldir en ágætlega traustir bílar sem fá tegundarheitið Chevrolet við endann á samsetningarfæribandinu og seljast síðan eins og heitar lummur um alla Asíu, A. Evrópu og S. Ameríku.

General Motors er greinilega loks áttað sig á að á matarborðinu er fleira matur en feitt ket og að fleira eru alvöru bílar en ofvaxnir amerískir átta gata drekar og pallbílar. Og því skyldu þá ekki Bandaríkjamenn geta ekið á samskonar bílum og aðrar þjóðir gera og láta sér vel líka?

Nýju smábílarnir sem GM mun sýna á New York sýningunni eru allt bílar frá Daewoo sem þegar eru þekktir á mörgum markaðssvæðum utan Bandaríkjanna, þar á meðal hér á landi, en hafa fengið andlitslyftingu til að ganga betur í augu bandarískra bílakaupenda og tll að uppfylla bandaríska bílastaðla. „Þessir hugmyndabílar munu sýna alþjóðlegan styrk GM og getu til að koma skjótt fram með nýjar bílagerðir sem falla bílakaupendum í geð hverju sinni,“ segir Ed Welburn hönnunarstjóri GM við Auto Motor & Sport.

En GM vll gjarnan vita hver þessara þriggja frumgerða sem sýndar verða í New York falla Bandaríkjamönnum best í geð. Því hefur verið opnuð vefslóð þar sem skoða má myndir af bílunum og greiða þeim hverjum um sig atkvæði frá og með opnunardegi sýningarinnar þann 6. apríl.