GM rafbíllinn Bolt er bíll ársins í N. Ameríku

Venju samkvæmt var tilkynnt við opnun n. amerísku bílasýningarinnar í Detroit í gær, hver væri bíll ársins í Bandaríkjunum og Kanada þetta árið. Það er nýi rafbíllinn Chevrolet Bolt (Opel Ampera-e í Evrópu).

Það er nefnd 57 bandarískra og kanadískra bílablaðamanna sem velur bíl ársins á þessu svæði heimsins. Bolt hlaut titilinn með 364 stigum. Í öðru sæti kom Genesis G90 frá Hyundai með 105 stig. Í því þriðja með 101 stig varð Volvo S90.

Þeir kostir sem skiluðu Bolt rafbílnum í efsta sætið voru að mati dómendanna langt drægi, stuttur hleðslutími og mjög hóflegt og þar með viðráðanlegt verð. Hann var eini rafbíllinn í úrslitum valsins. Allir aðrir þeir bílar sem komust á verðlaunapallinn voru með hefðbundnum brunahreyflum.

Sérstakar viðurkenningar voru einnig veittar bílum fyrir notagildi. Þau hlaut fjölskyldu-fjölnotavagninn Chrysler Pacifica. Sérstök jeppa- og pallbílaverðlaun hlaut svo Honda Ridgeline.