GM selur gírkassasmiðju

Reuters fréttastofan greinir frá því að General Motors vilji selja gírkassaverksmiðju sína í Strassbourg í Frakklandi. Í verksmiðjunni eru einkum framleiddar sjálfskiptingar fyrir GM bíla en einnig fyrir BMW. Þetta er í annað sinn á sl. fjórum árum sem reynt er að selja verksmiðjuna.

Í verksmiðjunni starfa um þúsund manns og í tilkynningu frá GM segir að leitað sé að kaupanda sem er tilbúinn til að reka hana áfram og framleiða upp í þegar gerða framleiðslusamninga. Á síðasta ári voru framleiddar 280 þúsund sex hraða sjálfskiptingar í verksmiðjunni. Flestar þeirra fóru í bíla sem byggðir voru utan Evrópu – bíla eins og Cadillac CTS og  Chevrolet Camaro.

Þó að talsmenn GM neiti því þá þykir bílamönnum ekki ólíklegt að söluferlið tengist samstarfssamningi GM og Peugeot-Citroen sem kynntur var í lok febrúar sl. Samkvæmt honum eru verkfræðingar og hönnuðir beggja byrjaðir að vinna saman að hönnun og þróun nýrra bíla og nýrrar driftækni.