GM slátrar ekki Opel

Greinilegt er að stjórn General Motors er hætt við að höggva Opel því hún hefur tilkynnt að settir verði fjórir milljarðar evra í fyrirtækið fram til ársins 2016 sem notaðir verði m.a. til að þróa og byggja 23 nýjar gerðir bíla.

Tap hefur verið á rekstri Opel (og Vauxhall í Bretlandi) um margra ára bil. Sögusagnir hafa lengi gengið um að GM hyggist losa sig við Opel/Vauxhall og fyrir nokkrum árum var fyrirtækið meira að segja auglýst til sölu en það síðan dregið til baka. Að undanförnu hefur sterkur orðrómur gengið um fyrirhugaðan samruna Opel og PSA í Frakklandi (Peugeot/Citroen) en í þeim efnum hefur ekkert verið staðfest enn.  En GM er vissulega búið að taka rækilega til í skúffunum því það er búið að losa sig við Saab í Svíþjóð og selja hlut sinn í Suzuki í Japan og ítölsku vélaverksmiðjunni IM Motori, sem m.a. framleiðir dísilvélar í GM, Suzuki og Fiat bíla, og leggja niður fjölda gamalla bílamerkja í Bandaríkjunum. Dan Akerson forstjóri GM segir í fréttatilkynningu að Opel sé hvorki meira né minna en lykillinn að vexti GM í Evrópu og víðar og eigi fullan stuðning móðurfélagsins vísan.

Nýjustu Opel bílarnir eru borgarbíllinn Opel Adam og jepplingurinn Opel Mokka sem báðir hafa fengið ágætar viðtökur.  Næstu árin er svo von 23 nýrra gerða Opelbíla og 13 nýjar driflínur (vélar, gírkassar og drif) eru einnig væntanlegar í þessum 23 nýju bílum. „Við erum hér til að sýna samstöðu okkar og stuðning með Opel sem við höfum átt samleið með óslitið síðan árið 1929. Samvinna okkar er meiri og sterkari en nokkru sinni fyrr,“ sagði Steve Girsky, talsmaður stjórnar GM á blaðamannafundi í gær. Hann sagði að Opel byggi yfir miklum krafti, frumkvæði og hugviti sem skipti sköpum fyrir GM sem heild. 

Taprekstur hefur verið á Opel allt frá árinu 1999. Samkvæmt nýjum áætlunum á jafnvægi í rekstrinum að nást um 2015.  Verksmiðju Opel í Bochum í Þýskalandi verður lokað og um 2000 starfsmönnum sagt upp. Bochum verksmiðjan hefur einkum framleitt Opel Zafira.