GM slítur samvinnu við Isuzu

http://www.fib.is/myndir/Isuzu-logo.jpg


Áratuga löngu samstarfi General Motors og hins japanska bílayrirtækis, Isuzu, hefur verið slitið. Það var GM sem átti frumkvæðið að samstarfsslitunum en hefur ekki gefið upp ástæðurnar. Bæði fyrirtækin hafa glímt við mikla rekstrar- og efnahagsörðugleika, en Toyota hefur nú gengið til samstarfs við Isuzu í stað GM.

GM átti um tíma um ráðandi 60% hlut í Isuzu og var í krafti þess verið einrátt um stefnuna og alla vöruþróun, þar á meðal um þróun dísilvéla hjá Isuzu sem margir þekkja í Trooper jeppunum og sem einnig voru í Saab og Opel bílum. Þessar vélar hafa þótt gallagripir, bæði háværar, bilanagjarnar og með lélega vinnslu eða togkraft.

Engar nýjar gerðir eða kynslóðir bíla hafa komið fram hjá Isuzu síðan 2004 og í raun hefur fyrirtækið liðið fyrir samstarfið við hið aðframkomna GM í sambandi við alla vöruþróun. En nú telja menn hjá Isuzu sig sjá bjartari framtíð í samstarfinu við Toyota. Viljayfirlýsing hefur þegar verið undirrituð sem bindur fyrirtækin þétt saman í þróunarmálunum. Toyota hefur þegar eignast 5,9% hlut í Isuzu og miklar áætlanir eru uppi um sameiginlega framtíð Toyota og Isuzu.

Í frétt frá Isuzu og Toyota um málið kemur ekkert fram um hvort eða að hve miklu leyti GM hafi selt hlut sinn í Isuzu né hverjum. GM seldi fyrr á þessu ári 20% hlut sinn í Subaru og sömuleiðis keypti Suzuki GM að mestu út úr fyrirtækinu. Þá sleit GM samstarfi við Fiat og þurfti að punga út miklum fjárhæðum til að losna út úr því dæmi.