GM tilneytt að selja Saturn, Pontiac og Saab?

http://www.fib.is/myndir/Amerikubill.jpg
Hinn stóri ameríski bíll - draumur úti i skurði.

Fréttastofan Bloomberg segir að í fjárhagsbasli sínu og til að blíðka bandaríska þingið og gera það viljugra til að afgreiða lágvaxtalán og styrk til GM, gæti fyrirtækið neyðst til þess að selja frá sér þrjú vörumerki; Saturn, Pontiac og Saab. Vitað er að mörgum þingmönnum finnst það hrein ósvinna að lána GM peninga til að styrkja rekstur erlendra dótturfyrirtækja.

En þetta með erlendu dótturfyrirtækin stenst þó ekki nema að því leyti er varðar hið sænska Saab. Bæði Saturn og Pontiac eru bandarísk fyrirtæki. Saab er hins vegar hluti af alþjóðlegri tækniþróun og tæknisamvinnu innan GM. Ef Saab yrði selt myndi verðmæt tækniþekking og verðmætir tæknimenn tapast út úr GM samsteypunni og nauðsynlegt yrði að ráða nýja í þeirra stað.

Þá er efnahagsástandið í hinum vestræna heimi þannig í augnablikinu að söluhorfur eru ekki vænlegar. Ekki er víst að sala gengi eitthvað skár en salan á Hummer hefur gengið hingað til. Hummer er í eigu GM, Vörumerkið og öll þess gögn og gæði hafa verið til sölu síðan snemma í haust og ekkert gengið né rekið. 

Stjórnendur GM, Ford og Chrysler koma í annað sinn fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Bandaríkjaþings í næstu viku til að reyna að blíðka þingmenn og fá einhvern pening greiddan út af þeim 700 milljörðum dollara sem ætlunin er að lána hinum þremur stóru í Detroit. Síðasta heimsókn bílamannanna til þingsins reyndist illilega misheppnuð. Þingmönnum þóttu forstjórarnir ótrúverðugir í hæsta máta og lítt kreppulegir þegar þeir komu til fundar við þingið í einkaþotum og með engar áætlanir í höndunum um hvernig þeir hyggðust vinna bug á þeim vanda sem fyrirtæki þeirra eru stödd í.

Bandarískir fjölmiðlar segjast hafa veður af því að í næstu viku hyggist forstjórarnir því keyra til Washington frá Detroit í bílalest sérstaklega sparneytinna bíla og þannig reyna að blíðka þingið og sannfæra það um að þeim sé þrátt fyrir allt alvara.