Góð þjálfun ökumanna grundvöllur fyrir umferðaröryggi

30 nemendur voru útskrifaðir úr ökukennaranámi við Endurmenntun Háskóla Íslands á dögunum.Endurmenntun hefur séð um námið í samstarfi við Samgöngustofu og Menntavísindasvið HÍ frá árinu 2017.

Fram kom í hátíðarræðu Sigurðar Inga Jóhannsonar, innviðarráðherra, við útskrftina að ný útskrifaðir ökukennarar hafi nú fengið nauðsynlegt veganesti til að undirbúa ökumenn framtíðarinnar undir krefjandi aðstæður við akstur.

„Góð þjálfun ökumanna er grundvallaratriði varðandi umferðaröryggi og að draga úr hættu á slysum í umferðinni. Góð ökukennsla veitir nemanda sjálfsöryggi og þá þekkingu sem til þarf. Þjálfun undir öflugri leiðsögn og góðu eftirliti getur þannig skilið á milli góðs ökumanns og þess sem kann að valda sjálfum sér eða öðrum hættu á vegum úti,“ sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni af því fram kemur á vef ráðuneytisins.

Sigurður Ingi sagði enn fremur að umferðarfræðslu á barnsaldri afskaplega þýðingarmikla. Foreldrar, leikskólar og skólar barna okkar leika stórt hlutverk við að kenna umferðarreglurnar. Öflugt og vel menntað fagfólk taki svo við kennslunni þegar undirbúningur fyrir ökupróf hefst

Ökukennsla og löggilding ökukennara hófst fljótt eftir að bifreiðaumferð hófst af alvöru á Íslandi. Kröfu um sérstakt próf fyrir bifreiðastjóra komið á með reglugerð árið 1915 og samhliða því krafa um löggildingu ökukennara. Fyrstu ökuskírteinin voru gefin út sama ár og einnig fyrsta löggilding til handa ökukennara.

Fram kom að unnið væri að því að gera umgjörð fyrir almennt ökunám stafræna frá upphafi til enda. Verkefnið væri í fullum gangi en umsókn um fullnaðarskírteini væri þegar orðin stafræn og hægt að sækja um hana á Ísland.is. Ráðherra sagði einnig að ökukennarar gætu líka gengið frá akstursmati með stafrænum hætti, en það er forsenda þess að geta fengið fullnaðarskírteini.

Á næsta ári væri stefnt að því að umsókn um bráðabirgðaskírteini yrði stafræn og í framhaldi af því umsókn um aukin ökuréttindi, bifhjólaréttindi og fleira. Þá verði ökunámsbókin gerð stafræn á næsta ári sem spari vinnu og fyrirhöfn. Prófanir væru þegar hafnar hjá Samgöngustofu. Ökunemar þurfi því ekki lengur að taka bókina með sér og passa upp á hana. 

Samgöngustofa stýrir verkefnum um stafræna umgjörð ökunáms í samvinnu við ráðuneytið, ríkislögreglustjóra og sýslumannsembætti. Stafrænt Ísland hefur yfirumsjón með þróun tæknilausna til að stafrænt ökunámsferli geti orðið að veruleika.