Golf og aftur Golf – sá vinsælasti í Evrópu 2016

Eins og við höfum áður greint frá en er nú staðfest, er að Volkswagen Group er komin fram úr Toyota sem stærsti bílaframleiðandi heims með sína Fólksvagna, Audi, Skoda, Seat og fleiri tegundir. Árangurinn er ekki síst að þakka velgengni VW á hinum risastóra Kínamarkaði. Evrópa er þó enn sem fyrr heimasvæði Volkswagen og þar hefur Volkswagen merkið ótvíræða yfirburði, sérstaklega þó VW Golf. 

Toyota er þó enn sem áður mest selda einstaka bifreiðategund veraldar þótt hún eigi vissulega nokkuð í land með að verða söluhæsta bifreiðategundin í Evrópu - að Íslandi þó undanskildu. Á Íslandi hefur Toyotan ótvíræða yfirburði á fólksbílamarkaðinum. Í fyrra (2016) voru nýskráðar hér 3.069 Toyota fólksbifreiðar en 1.605 Volkswagen fólksbifreiðar.  

Síðasta ár var talsvert tímamótaár í Svíþjóð því að þá gerðist það í fyrsta sinn í meir en 50 ár að Volvo var ekki með flestar nýskráningar, heldur var það Volkswagen Golf sem ýtti Volvo niður í annað sætið. Þetta þótti Svíum mikil tíðindi. En hvað með önnur Evrópulönd? Lítum nánar á það. Nýskráningartölur ársins 2016 eru innan sviganna.

Belgía: Volkswagen Golf

Volkswagen Golf er vinsælasti fólksbíllinn (14.519). Næstur honum er Renault Clio (11.600). 

Danmörk: Peugeot 208

Peugeot gerir það einna best hlutfallslega í Danmörku af Evrópuríkjum. Söluhæsti bíllinní fyrra var Peugeot 208 (9.381). Næstur söluhæstur var Volkswagen Up (7.361), 

Eistland: Skoda Octavia

Vinsælasti bíllinn í Eistlandi var Skoda Octavia (1.139). Næstur var Toyota Avensis (838).

Finnland: Skoda Octavia

Finnar kunnu líka að meta Skódann . Þar var Skoda Octavia söluhæst (5.530). Næst á eftir kom Nissan Qashqai (4.663).

Frakkland: Renault Clio

Frakkar kunna auðvitað vel að meta sína eigin bíla. Þar var Renault Clio söluhæstur (112.118). Næst söluhæstur var Peugeot 208 (97.817). Rúmensk-franski bíllinn Dacia Sandero er eini erlendi bíllinn sem náði inn á lista tíu söluhæstu bílanna í Frakklandi í fyrra.

Grikkland: Toyota Yaris

Toyota Yaris var söluhæstur í Grikklandi (5.307). Næstur kom Opel Corsa (3.845). 

Írland: Hyundai Tucson

Hyundai Tucson var söluhæstur á Írlandi í fyrra (7.425). Næstur kom Volkswagen Golf (5.143). 

Ítalía: Fiat Panda

Heimaframleiddi bíllinn Fiat Panda var sá söluhæsti á Ítalíu (147.262). Næstur er Lancia Ypsilon (65.647).

Lettland: Nissan Qashqai

Nissan Qashqai er vinsæll í Lettlandi (772). Næst vinsælastur var Skoda Octavia (577).  

Litháen: Fiat 500

Fiat 500 reyndist lang vinsælasti bíllinn í Litháen (2.459). Sá næst vinsælasti var Nissan Qashqai. (794). 

Holland: Volkswagen Golf

Volkswagen Golf var efstur (10.858) en aðeins 117 nýskráningar skildu milli hans og þess næstvinsælasta sem var Renault Clio (10.741). 

Noregur: Volkswagen Golf

Volkswagen Golf er efstur (12.259). Næstur var Mitsubishi Outlander (5.687).

Pólland: Skoda Octavia

Skoda er tvöfaldur sigurvegari. Efstur varð Skoda Octavia (16.960). Næstur kom Skoda Fabia (15,070).  

Rúmenía: Dacia Logan

Heimabílarnir frá Dacia eru á toppnum. Dacia Logan er efstur (16.911). Númer tvö er Dacia Duster (5.251).  

Spánn: Seat Leon 

Heimabílarnir frá Seat eru vinsælastir. Efstur er Seat Leon (33.494). Næstur er Seat Ibiza (31.754).

Svíþjóð: Volkswagen Golf

Þetta kom mörgum Svíum á óvart eftir hálfrar aldar slímusetu Volvo í efsta sætinu. Volkswagen Golf varð efstur (22.088) og ýtti Volvo V70/V90 (17.270) niður í annað sætið.

Stóra Bretland: Ford Fiesta 

Ford Fiesta er efst (120.252). Næstur er Vauxhall Corsa (77.110). 

Tékkland: Skoda Octavia 

Skódarnir eru á heimavelli í Tékklandi. Efstur er Skoda Octavia (28.406) og í öðru sætinu er Skoda Fabia (21.769). Fyrsti erlendi bíllinn í Tékklandi á lista tíu efstu er í fimmta sætinu. Það er Hyundai i30 (7.900). 

Þýskaland: Volkswagen Golf

Heimabílarnir frá Volkswagen eru í efstu sætunum. Golfinn er efstur (185.654). Næstur er VW Passat (79.216). GM-bíllinn Opel Astra er í fimmta sæti (65.197) og Opel Corsa í því tíunda (55.196).