Golfsólgleraugu sem skerpa sýn ökumanna

The image “http://www.fib.is/myndir/Roxor.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Torbjörn Stehager með Roxor-gleraugun góðu.
Komin eru á markað sérstök golfgleraugu til að skerpa sjón golfleikara í hvort heldur sem er sólskini, regni, í ljósaskiptunum eða rökkri. Þessi fjölhæfu gleraugu eru auðvitað upplögð líka til að skerpa sjónina hjá ökumönnum við öll veðurskilyrði og þá duga þau vel fyrir stangveiðimenn. Auto Motor & Sport í Svíþjóð greinir frá þessum undargleraugum og manninum sem bjó þau til; Torbjörn Stehager.
Torbjörn Stehager er áhugamaður um golf og talstöðvafjarskipti og hefur stundað hvorttveggja í frístundum. Í fjarskiptunum pældi hann mikið í bylgjulengdum útvarpsbylgja og á sama hátt tók hann að pæla í bylgjulengdum ljóss í tengslum við golfíþróttina – hvaða bylgjulengdir þyrfti að sía út og hverjar ekki, til að sjá skýrar yfir golfvöllinn. Nú tíu árum síðar eru gleraugun, sem hann kallar Roxor, komin á markað og þeir sem hafa prófað þau segja allir að í gegn um þessi undragleraugu sjáist allt miklu skýrara.
Það sem truflaði Stehager mest í golfinu er það hve erfitt er fyrir mannsaugað að greina milli blæbrigða græna litarins á grasinu á og í umhverfi vallanna á sama tíma og það greinir vel önnur litablæbrigði.
Eitt af því sem Roxor gleraugun gera er að sía græna litinn. Við það greinir augað aðra liti og blæbrigði þeirra miklu skýrar. Þar á ofan er glerið „pólariserað“ til að deyfa glampa og endurkast, t.d. frá vatni í sólskini. Roxor gleraugun hafa þau áhrif í stórum dráttum að sú mynd sem augað nemur í gegn um þau hefur skarpari andstæður (kontrast) en án þeirra. Fyrir ökumenn þýðir þetta að með Roxor gleraugum greinast allir „kontrasta“ í umhverfinu miklu skýrar. Ökumenn sá því skýrar vega- og gangstéttakanta, yfirborðsmerkingar, skilti og aðra umferð, jafnvel í votvirði og dimmviðri, sem vitanlega er mjög mikilvægt.
Blaðamennirnir á sænska Auto Motor & Sport hafa prófað Roxor gleraugun um nokkurra vikna skeið. Þeir uppljúka einum munni um að gleraugun séu einfaldlega frábær. Þeir sjái miklu betur með þeim og augnþreytu undir stýri gæti ekki lengur.
Roxor gleraugun fást í  öllum Synsam gleraugnaverslunum í Svíþjóð og kosta frá um 12 þúsund ísl. krónum.