Göt koma í bílaskattamúrana í Noregi

http://www.fib.is/myndir/Oslotrafik.jpg

Frá 1. október nk. getur fólk sem búsett er í Noregi en starfar hjá fyrirtækjum sem reka starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu fengið sérstaka heimild yfirvalda til að aka bílum sem skráðir eru utan Noregs.

Hingað til hefur öllum sem búsettir eru í Noregi verið óheimilt að aka bílum á erlendum númerum innan Noregs án þess að eiga á hættu stórar sektir og að bíllinn jafnvel verði gerður upptækur. Svipuð lög hafa verið í gildi í Danmörku en eftir að Evrópudómstóllinn úrskurðaði að í þessu fælust slæmar hindranir á atvinnu- og athafnafrelsi því sem í gildi er á Evrópska efnahagssvæðinu hafa komið göt í háa tollamúra þessara tveggja landa.

Norskir starfsmenn erlendra fyrirtækja með starfsstöðvar í Noregi mega frá og með 1. október aka á vinnubílum sem skráðir eru utan Noregs. En skilyrðin eru ströng og erlendu bílana má einungis nota innan tiltekinna tímamarka og meirihluti ekinna kílómetra skal fara fram á vegum utan Noregs.