Götuþvottur og malbikunarframkvæmdir

Götuþvottur stendur nú yfir af fullum krafti en það er hluti af hreinsun gatna í Reykjavík að vori. Byrjað var af krafti  í apríl með sópun stofnleiða og þessa dagana  er farið skipulega um hverfin og húsagötur sópaðar og þvegnar.

 Mikill tækjakostur er nýttur í vorhreinsunina þær 10 vikur sem hún stendur. Flotinn samanstendur af átta götusópum, átta gangstéttasópum og þremur vatnsbílum með háþrýstibúnaði til götuþvottarins segir í tilkynningu.

Best gengur að þrífa göturnar þegar bílar og önnur tæki hafa verið færð  úr götunni því þá er hægt að fara yfir öll almenn stæði og götukanta í einni umferð. Dreifibréf eru send til íbúa og merkingar settar upp áður en kemur að þrifum. Einungis er þrifið á borgarlandi en ekki farið inn fyrir lóðamörk.

Íbúar sem vilja vita með fyrirvara hvenær gata þeirra verður þrifin geta skoðað verkáætlun á vefsíðunni reykjavik.is/hreinsun. Starfsmenn í hreinsun fá á þessum tíma gjarnan hringingar um að illa sé sópað, en þá er oft skýringin sú að göturnar eru grófsópaðar fyrst, einkum þar sem ná þarf upp miklu magni af sandi.  Íbúar eru eindregið hvattir til að láta vita af stöðum þar sem þeir telja að þurfi að þrífa betur og þar er skilvirkast að nota ábendingavefinn – reykjavik.is/abendingar.

Mikil vinna blasir við í malbikunarframkvæmdum í sumar en margar götur í borginni þarfnast viðgerðar eftir veturinn. Nú þegar liggur ljóst fyrir að hátt í 170 götur verða malbikaðar í borginni í sumar og hljóðar kostnaðaráætlun upp á 1,2 milljarða.