Ekkert nema græðgi stjórnar ferð hjá íslenskum olíufyrirtækjum

Eins og kom fram í fréttatilkynningu fyrir helgina frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda er bensínlítrinn nú fimmtíu krónum dýrari en hann var í byrjun árs, þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíu sé svipað og þá. Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir græðgi stjórna ferð hjá íslenskum olíufyrirtækjum.

Bensínverð hefur hækkað mikið frá byrjun árs og raunar aldrei verið dýrara hér á Íslandi en á þessu ári. Fyrst um sinn skýrðist verðhækkunin af stríði Rússa í Úkraínu en í haust lækkaði heimsmarkaðsverð á bensíni svo aftur. Heimsmarkaðsverð á hvern bensínlítra í janúar og febrúar voru um 95 krónur og verðið er nú svipað. Þrátt fyrir það er bensínið mun dýrara hjá bensínfyrirtækjum en í byrjun árs.

Við upphaf stríðsins kostaði bensínlítrinn 265,6 krónur hér á landi og í júlí var meðalverðið komið upp í 308,3 krónur. Nú stendur það hins vegar í 324,14 krónum á lítrann.

Stór hluti af vísitölu neysluverðs sem aftur hefur áhrif á verðbólguna

„Þetta leggst þungt á alla. Heimilin borga háar upphæðir fyri reldsneytisnotkun. Þetta er stór hluti af vísitölu neysluverðs, sem aftur hefur áhrif á verðbólguna,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi 

„Það er svolítið undarlegt að stjórnvöld og þá líka seðlabankinn sé ekki að monitora þennan markað betur. Það skiptir verulegu máli fyrir alla og það er í rauninni bara óþolandi að við séum á þannig markaði með þessa vöru, svona fákeppnismarkaði þar sem fyrirtækin komast upp með að okra á neytendum, og þau virðast gera það í einum takti,“ segir hann.

Komnir út yfir alla þjófabálka

„Þau hafa komið með alls konar furðulegar skýringar, svo sem að framleiðnin sé ekki sem skyldi. Ég veit ekki hvort þeir miða við prósentu en nú eru þeir komnir út yfir alla þjófabálka hvað varðar álagnignu og þá framlegð. Þannig að væntanlega er bara verið að reyna að gleðja hluthafana, skila betri arði í bú. Það er kannski merkilegt að stærstu eigendur olíufélaganna eru lífeyrissjóðirnir sem við sjálf eigum,“ segir Runólfur.

„Það er ekkert nema græðgi og ofurálagning, því miður.“