Grafalvarleg staða GM

http://www.fib.is/myndir/GM_logo_1.jpg

Bloomberg fréttastofan greinir frá því í morgun að stjórnendur hins nær gjaldþrota bílarisa General Motors séu nú að reyna að semja um ýmist lækkun eða niðurfellingu skulda. Takist það ekki sé líklegt að starfsemin komist í þrot því að lausafjárskortur muni stöðva rekstur GM strax fyrir áramót ef heldur fram sem horfir. Auk þess séu stjórnendur að reyna að ná samningum við stéttarfélög starfsmanna um að þau breyti verklagi sínu gagnvart GM á þann veg að auðveldara verði að semja við opinbera aðila um lán og stuðning.

Meðal þess sem GM þarf nauðsynlega að ná samkomulagi um við stéttarfélögin er að fresta greiðslu á gjaldfallinni sjö milljarða dollara greiðslu í sjúkra- og eftirlaunasjóð starfsmanna. Til að geta gert sér von um opinberan stuðning og lán þarf forstjóri GM, Rick Wagoner að geta lagt fram fyrir bandaríska þingið áætlun um hvernig ætlunin er að reka GM í framtíðinni og gera þessu stærsta bílafyrirtæki Bandaríkjanna mögulegt að lifa af hremmingarnar og greiða væntanlegt opinbert lán til baka. Nancy Pelosi þingforseti og Harry Reid leiðtogi þingmeirihlutans  hafa gefið Wagoner lokafrest til 2. des. til að skila þinginu áætluninni. Það greiðir síðan líklega atkvæði um lánið þann 8. des. nk. Framkvæmdastjórar GM ræða drög að áætluninni á símafundi í dag. http://www.fib.is/myndir/Chevroavalanche.jpg

En það er ekki bara GM sem er í vanda, heldur allur hinn „¬þjóðlegi“ og þríeini bandaríski bílaiðnaður – GM Ford og Chrysler - hinir þrír  stóru. Öll fyrirtækin þrjú hafa sótt um ríkisstuðning. Sérstök þingnefnd hefur yfirheyrt forstjórana þrjá um það hvernig þeir hyggist blása lífi í fyrirtækin og endurgreiða síðan væntanlega lágvaxtalán frá skattgreiðendum. Rick Wagoner var síðastur í röðinni í síðustu viku til að verða tekinn á beinið hjá þingnefndinni en yfirheyrslur yfir honum stóðu í tvo daga. Eftir yfirheyrslurnar hjá nefndinni sagði repúblikaninn Richard Shelby frá Alabama að forstjórarnir hefðu sýnt af sér þvílíkan hroka í þessum yfirheyrslum nefndarinnar og að líklega yrði rétt að skipta þeim út áður en hugsanleg lán yrðu afgreidd.

Skuldir GM þessa stundina eru að því er Bloomberg segir um 43 milljarðar dollara. Lífsnauðsynlegt sé að lækka þessa tölu og að hún verði verulega jafnvel eftir að búið verður að greiða út lágvaxtalán ríkisins sem líklega verður um 12 milljarðar dollara. Takist það ekki verður GM einfaldlega ekki samkeppnishæft. Gengi skuldabréfa í GM á 8,38 prósenta vöxtum með gjalddaga í júlí 2033 féllu í verði á föstudag um 1,8 cent niður í 17 cent á dollar. Það er lægsta gengi þessara bréfa nokkru sinni.